Maze Runner: The Death Cure, þriðja og síðasta myndin í The Maze Runner-þríleiknum, trónir á toppi listans yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Alls sáu rúmlega 3.000 landsmenn myndina yfir helgina. Myndin var frumsýnd föstudaginn 26. janúar og fór rakleiðis á topinn. Í myndinni snúa aðalpersónan Thomas og vinir hans vörn í sókn og freista þess að frelsa aðra úr ánauðinni sem fyrirtækið WCKD, undir stjórn Övu Paige, hefur haldið þeim í.
Í öðru sæti listans er framhaldsmyndin um breska bangsann Paddington. Í Paddington 2 lendir bangsinn í mikilli klemmu þegar óprúttinn þjófur stelur fágætri bók sem hann ætlaði að kaupa til að gefa frænku sinni í afmælisgjöf. Þjófurinn lætur sig svo hverfa á dularfullan hátt en með þeim afleiðingum að lögreglan heldur að Paddington sé þjófurinn.
Kvikmyndin The Post sem skartar Tom Hanks og Meryl Streep í aðalhlutverkum situr í þriðja sæti listans. Myndin gerist árið 1971 en á fyrri hluta þess árs komust blaðamenn dagblaðsins The Washington Post yfir ríkistrúnaðarskjöl sem síðan hafa verið kölluð „The Pentagon Papers“. Gögnin innihéldu m.a. viðamiklar upplýsingar um afskipti Bandaríkjastjórnar af innanríkismálum Víetnam allt frá árinu 1945 og átti þessi gagnaleki eftir að valda gríðarlegum skjálfta í æðsta stjórnkerfi Bandaríkjanna.