Í gær sáum við sjö sekúndna kitlu fyrir sjónvarpsþættina Marvel’s Agents of S.H.I.E.L.D. sem væntanlegir eru næsta vetur á ABC sjónvarpsstöðinni bandarísku.
Í dag er bætt um betur, en ný 30 sekúndna kitla var að koma á netið fyrr í dag:
Marvel´s Agents of S.H.I.E.L.D. fjallar um alþjóðlegt löggæslulið sem gengur undir nafninu S.H.I.E.L.D. sem komið hefur við sögu í nokkrum Marvel ofurhetjumyndum á síðustu árum, þar á meðal í stórmyndinni The Avengers í fyrra.
Eins og sást í kitlunni í gær þá er það Clark Gregg í hlutverki Agent Phil Coulson sem verður miðpunkturinn í þáttunum, en Joss Whedon leikstjóri The Avengers er höfundur og leikstjóri þáttanna.
Löggæslumennirnir eru vel þjálfaður lítill hópur sem glímir við óvenjuleg verkefni, út um allan heim. Brett Dalton mun leika bardaga- og njósnasérfræðinginn Agent Grant Ward. Ming-Na Wen leikur flugmanninn og bardagalistamanninn Agent Melinda May. Iain De Caestecker og Elizabeth Henstridge leika Alentana Leo Fitz og Jemma Simmons, snjalla en fremur ófélagslynda vísindamenn.
Af þessari kitlu að dæma, eins og þeirri sem kom í gær, verður nóg af fjöri og spennu í þessum þáttum, og eitthvað grín einnig, eins og sést í lok kitlunnar.