Nýi Spider-Man leikarinn Tom Holland leikur aðalhlutverkið í nýjum kofatrylli ( spennutryllir þar sem menn gista í kofa og óboðnir gestir koma í heimsókn ), Edge of Winter, ásamt The Killing og Suicide Squad leikaranum Joel Kinnaman.
Myndin, sem er fyrsta mynd leikstjórans Rob Connolly í fullri lengd, fjallar um feðga sem ákveða að fara út í skóg á veiðar, en lenda í slysi á leiðinni og leita skjóls í kofa við ísilagt vatn. Hljómar eins og góð uppskrift að æsilegum spennutrylli!
Aðrir helstu leikarar eru Percy Hynes White, Rachelle Lefevre, Shiloh Fernandez, Rossif Sutherland, Patrick Garrow og Shaun Benson.
Söguþráðurinn er þessi í meiri smáatriðum: Elliot Baker er nýfráskilinn og nýlega búinn að missa vinnuna. Hann vill eyða meiri tíma með sonum sínum tveimur, þeim Bradley, sem Holland leikur, og Caleb, sem Night at the Museum: Secret of the Tomb leikarinn Percy Hynes leikur. Þeir ákveða að fara í veiðiferð þar sem Baker ætlar að kenna sonum sínum að skjóta úr byssu. Þetta byrjar allt rólega og sakleysislega, en breytist í sann- kallaða martröð þegar þeir keyra útaf veginum og leita skjóls í kofa langt utan alfararleiðar. Elliot er logandi hræddur um að missa forræði yfir sonunum, og vill því ekki láta fréttast að hann hafi lent í þessu atviki með byssur með í för. Hann verður því örvæntingarfullur, og drengirnir átta sig fljótlega á því að pabbi þeirra, sem lofar að vernda þá gegn öllu illu, gæti verið sá sem þeim stafar mesta hættan af.
Sjáðu fyrstu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Edge of Winter verður frumsýnd í Bandaríkjunum 12. ágúst nk.