Mark Wahlberg vill verða Hausaveiðari

Eldingu lýstur aldrei niður tvisvar á sama stað segir máltækið, en Mark Wahlberg er samt greinilega það ánægður með árangur Contraband að hann langar til að freista þess að endurgera fleiri skandínavískar glæpamyndir. Whalberg sagði í viðtali nýlega:

„Ég sá mynd fyrir stuttu sem hét Headhunters. Þetta er norsk mynd, og ein af þeim betri sem ég hef séð í langan tíma.“

Þar er Wahlberg sammála mér, en ég var svo heppin að drífa mig að sjá myndina þegar hún var sýnd hér á landi í haust, gjörsamlega féll fyrir henni, og setti hana efst á minn lista yfir uppáhaldsmyndirnar mínar frá 2011. Wahlberg hélt áfram:

„Ég hitti leikstjórann og talaði við stúdíóið sem á réttinn, svo við sjáum til hvort þetta kemst einhvert áfram.“

Þar á Wahlberg við Sasha Gervasi, sem hefur verið að undirbúa endurgerðina fyrir Summit, síðan að þeir keyptu réttinn að myndinni. Ef af verður myndi endurgerðijn bætast í sívaxandi stafla af væntanlegummyndum Wahlbergs, en hann birtist í Ted eftir Seth Macfarlane í sumar, og Broken City2 Guns (aftur með Baltasar), og Pain and Gain (eftir Michael Bay) eiga allar að koma út á næsta ári. Þá gæti margumtalaða framhaldið af The Fighter öðlast eitthvert líf.

Þá er komið að kaflanum þar sem ég segi hvað mér finnst. Eins og kom fram hélt ég gríðarlega upp á Headhunters, og lýst í rauninni ekkert á að hún verði endurgerð. Upprunalega myndin var bara nánast fullkomin. Þetta segi ég án þess að hafa lesið skáldsöguna sem myndin byggði á. Wahlberg finnst mér einnig að myndi ekki passa neitt sérstaklega í aðalhlutverkið, sem Aksel Hennie túlkaði með glæsibrag í norsku útgáfunni, né hitt stóra hlutverkið sem Nikolaj Coster-Waldau átti algjörlega. Reyndar held ég upp á leikstjórann Sasha Gervasi, sem gerði hina frábæru heimildamynd Anvil: The Story of Anvil síðast, en myndi í rauninni frekar vilja sjá hann snúa sér að einhverju öðru. Er annars einhver sem sá þessa mynd og fékk þá tilfinningu að hægt væri að gera betur?

Glöggir lesendur taka eftir því að ég hef ekki skrifað stakt orð um hvað myndin fjallar. Það er vegna þess að ég sá hana algjörlega kaldur, og mæli með því að sem flestir geri slíkt hið sama. En ef þú vilt endilega vita um hvað hún er, þá er hér stiklan: