Málmhaus í leikstjórn Ragnars Bragasonar og Hemma, sem er sænsk/íslensk meðframleiðsla, í leikstjórn Maximilian Hult, hafa verið valdar til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan í Suður Kóreu, sem hófst þann 3. október og lýkur 12. október.
Hátíðin er ein stærsta og virtasta kvikmyndahátíðin í Asíu og telst til svokallaðra „A“ hátíða, samkvæmt tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð.
Málmhaus er að mestu tekin undir Eyjafjöllum og segir frá Heru Karlsdóttur, en æska hennar er áhyggjulaus í sveitinni þar til harmleikur dynur yfir. Eldri bróðir hennar deyr af slysförum og Hera kennir sjálfri sér um dauða hans. Í sorginni finnur hún sáluhjálp í þungarokki og dreymir um að verða rokkstjarna.
Málmhaus verður frumsýnd hér á landi þann 11. október næstkomandi.
Hemma segir frá einfaranum Lou, sem er vel gefin ung kona sem býr með móður sinni í stórborginni. Lou veit ekki betur en að þær eigi ekki aðra ættingja á lífi og er það því mikið áfall þegar hún fær fregnir af því að móðuramma hennar sé enn á lífi og að afi hennar sé nýlátinn. Gegn vilja móður sinnar ákveður Lou að fara í jarðarför afa síns og flytur til ömmu sinnar. Tökur á myndinni fóru fram á Eyrarbakka síðastliðið sumar.
Nánari upplýsingar um hátíðina má nálgast hér.