Magnaður endir á framúrskarandi þríleik!

Ég er eiginlega orðinn hálfþreyttur á því hvað Christopher Nolan er mikill snillingur. Það er bara takmarkað hversu oft er hægt að hrósa einum leikstjóra stíft með svona stuttu og reglulegu millibili. Sterku lýsingarorðin eru öll að klárast, nema ég snúi mér að öðru tungumáli. Þetta er nefnilega ekki lengur spurning um hæfileika eða heppni hvað hans frammistöðu varðar og ég myndi segja fólki að toga vaxlitina út úr eyranu á sér ef það ætlar að mótmæla því að þetta er ein stærsta gersemin á markaðinum í dag; nördagull, ofurheili, frumkvöðull og guðatákn í augum þeirra sem þreytast fyrr á heilalausu bíóléttmeti. Þegar maður er kominn með fleiri en þrjú meistaraverk á ferilskránna sína, sem gerð eru á rúmum áratugi, þá breytast ákveðnir stimplar úr smekksatriðum meirihlutans í beinharðar staðreyndir. Bane-harðar!

Það að ná að flytja svona goðsagnarkennda myndasöguhetju í svona (mestmegnis) raunsæjan, grimman, spennandi og metnaðarfullan bíóheim með sérstakt tillit til persónusköpunar og handrits (og að geta síðan týnt inn magnaðar hasarsenur sem deyfa á manni kjálkann) er ólýsanlegt afrek í sjálfu sér. Afrek fyrir hugmyndaríkan og snjallan fagmann, hans kraftmikla teymi og lostæti fyrir bæði myndasögu- og kvikmyndaunnendur. Nolan hefur tekist að búa til Godfather-útgáfuna af Batman-seríu, nema í þessu tilfelli er lokamyndin langt frá því að vera sú sísta og ef satt skal segja er þetta einn flottasti þríleikur sem hefur verið púslaður saman síðan á dögum Hringadróttinssögunnar eða Three Colors eftir Kieslowski.

Upphitunarmynd eins og Batman Begins, sem er langt frá því að vera eitthvað stórvirki, er léttilega á pari með bestu SupermanX-Men– eða Spider-Man-myndunum. Árið 2005 var ég reiðubúinn að sætta mig við það að betri Batman-mynd væri varla hægt að biðja um, ómeðvitaður um þessa fyrirtaks uppstillingu sem hún á endanum varð að. The Dark Knight kom síðan, sá og sigraði heiminn, froðufelldi gómanna á gagnrýnendum og áhorfendum um allan heim, en það segir sig líka sjálft því hún er svo stórkostleg og klikkaðslega frábær út á alla kanta að það nær engri átt. Leikstjórinn (og bróðir hans, sem sér um handritið með honum) hefur greinilega þurft að svitna mörgum lítrum og rembast með sjáanlegar æðar til geta skapað framhaldsmynd sem er verðugur arftaki seinustu myndar sem og passlegur endir á þennan sjálfskipaða þríleik.

Ég hefði svosem fyrirgefið Nolan fyrir að valda smávegis vonbrigðum hér, ef svo væri raunin.Inception hefði pottþétt dugað sem gott huggunarmeðal. Það eru nokkur agnarsmá, fyrirsjáanleg „nitpick“ atriði sem hindra það að hér sé einhver fullkomin kvikmynd í boði, en helvíti hafi það samt hvað The Dark Knight Rises er ofboðslega mikil snilld! Epísk, dramatísk, vönduð, villimannsleg, graníthörð, djörf og viðurstyggilega skemmtileg án þess að tapa flugi eða auganu fyrir þeim fullkomna endi sem er verið að byggja upp. Stundum þarf maður að minna sjálfan sig á það að þetta er fyrst og fremst Batman-mynd, vegna þess að hér á yfirborðinu sé ég aðallega stríðs(glæpa)mynd á Óskarskalíberi. Leikarar og persónur taka allan forgrunn en sprengingar, eltingarleikir og skikkjuklædd hetja stígur síðan inn með dýrðindis sjónarspili til að auka nördafullnæginguna og launa þolinmæðina fyrir rólegheitunum. Seinustu 30-40 mínúturnar eru algjörlega himneskar. Leikstjórinn hefur aldrei nokkurn tímann gert mann svona agndofa áður.

Myndin er löng, lengi að líða en sýningartíminn vinnur aldrei gegn flæðinu eða innihaldinu. Þetta er alvöru epík með mörgum hápunktum og miklu breiðara sögusviði en í fyrri myndunum. Miðað við persónufjöldann, arkirnar og stærð hasarsena er nóg til að fjalla um á þessum tímaramma og jafnvel gæti sagan auðveldlega þolað meira svigrúm að mínu mati. Ég kalla það nú samt merki um afbragðsþjöppun þegar Nolan færir manni 160 mínútur af stanslausri geðveiki með skipulagðri frásögn (fyrir utan nokkrar lógískar gloppur), en mín vegna mætti þetta vera Gone With the Wind ofurhetjumyndanna án þess að ég hefði kvartað.

Vasaklútar þurfa að vera við hendi. Helst sér sett af þeim fyrir augun. Dramatíkin finnst mér vera eins góð og þú finnur nokkurn tímann í raunverulegri umsátursmynd um Leðurblökumanninn. Viðeigandi æðið fyrir myrkum þemum heldur að sjálfsögðu áfram hjá Nolan og félögum. Eins og margbúið er að stafa út þá var það óttinn sem einkenndi söguna í Batman Begins, kaosið í The Dark Knight og að þessu sinni er það sársaukinn. Grimmd, niðurrif, vonbrigði og örvænting er eldhressa tungan á þessum bæ og er uppbyggingin stórskemmtilega bundin utan um það sem titillinn gefur til kynna. Skiljanlega verður myrkrið hins vegar alltaf dimmara og dimmara með hverri sögu og leiðir það sjálfkrafa til þess að leikararnir fái þyngri og meira krefjandi hlutverk, sömuleiðis þessir í aukahlutverkum. Þetta eru nú samt allt hágæðamenn hér á skjá, frá Christian Bale til Gary OldmanMichael Caine og Morgan Freeman, er ekki einn einasti sem slær feilnótu, en býst heldur enginn við öðru. Nýliðarnir inn í seríuna eru eldsnöggir að koma sér vel fyrir, en Anne Hathaway og klárlega Joseph Gordon-Levitt bera hiklaust af. Ég vil samt sérstaklega gefa Caine hrósið fyrir að hafa lamið mest í hjartað á manni. Heimurinn væri, í fullri alvöru, verri án þessa manns.

Vinkillinn sem Hathaway tekur á Catwoman er ólíkur öllu öðru sem hefur verið kvikmyndað. Hvort sem það á við um teiknimyndablöð, tölvuleiki, bíómyndir eða þætti, þá hef ég séð hana kynþokkafyllri, einfaldlega vegna þess að Nolan hefur hingað til voða kynlaus leikstjóri (án djóks, þessi maður kann aldrei að skjóta eitthvað á sexý hátt) en í staðinn kemur lúmsk persóna með falda dýpt. Þessi saga hefði aldrei gengið upp án hennar og það er einkum athyglisvert að sjá þessa þekktu fígúru án þess að nokkur tenging sé gerð við malandi kisulórur. Levitt er sömuleiðis gerður að ómissandi viðbót og heldur kúlinu sínu eins og ekta nagli. Þetta er einn af þessum leikurum sem getur nánast allt og ómögulegt er að líka illa við.

Stærsta pressan lendir óhjákvæmilega á hinum dúndursvala Tom Hardy, fyrir það eitt að fylgja eftir látnum snillingi sem stal allri seinustu mynd með ódauðlegri túlkun á klassísku illmenni… og sigraði Óskarinn! Hardy gæti leikið símaskrá og staðið sig eins og brillerandi fagmaður og gerir muldrandi steratröllinu Bane afar góð skil. Þetta er krefjandi hlutverk. Mjög svo. Frammistaðan stýrist aðallega af augum hans og ógnandi nærveru og er leiksigurinn að finna í hvoru tveggja. Bane er eldklár leiðtogi sem og óttalaus og þursasterkur hryðjuverkamaður. Hann pælir út flóknar aðgerðir á svipuðu stigi og Jókerinn en er miklu manneskjulegri einstaklingur. Meiri vöðvar, minni sálfræði. Bane er mergjaður skúrkur en við hliðina á Jókernum er augljóst hvor tekur bikarinn. Að bera þá tvo saman er óhjákvæmilegt en pínu ósanngjarnt. Þetta eru gerólíkir gæjar. Gerólíkar myndir, ef út í það er farið.

Af öllum þremur myndunum líst mér best á andrúmsloftið í þessari og er ótrúlega ánægjulegt að sjá hve ólík áferðin er á þeim öllum (brúnn litafilter á fyrstu, bláleit Heat-áhrif í gegnum nr. 2, gráir tónar núna). Það er heldur ekki spurning um að mesta fjörið sé í þessari ef rætt er um ofbeldi og brjálæði á stórum skala. Opnunarsenan setur m.a.s. háan standard fyrir það sem koma skal. Seinni helmingurinn sér í lagi trompar allt sem gerðist í fyrstu myndinni. Hann er það sterkur að exposition gallarnir í fyrstu senunum hverfa hér um bil sporlaust. Andlitið dofnar bara þegar maður sér púðrið sem er lagt í framleiðsluna, ef ekki bara statistafjöldann. Tölvubrellur blandast venjulega gallalaust við öll umhverfi og er ansi erfitt að skáka alvöru, praktískan hasar þar sem pixlar eru í lágmarki og í staðinn notuð vönduð sviðsetning með flottri klippingu og myndatöku. Nolan verður sífellt betri og betri hasarleikstjóri og heldur sig venjulega við eltingarleiki, eyðileggingar og slagsmál af gamla skólanum, en með aukakryddi. Kvikmyndatökumaðurinn Wally Pfister (passið að bera nafnið rétt fram) tekur endalaust við öllum sturluðu áskorunum sem koma frá leikstjóranum. Stór partur af myndinni er skotinn með IMAX-vélum og lítur öll myndin stórkostlega út. Þeir sem vita eitthvað um IMAX-græjur munu dást enn meira að þessu öllu því þeir vita að það er alls ekkert grín að meðhöndla þessar gígantísku vélar.

Nolan hefur heldur ekkert látið alheimsgagnrýnina á gargandi Batman-röddinni böggað sig og hefur lítið kosið að breyta henni hér, en það þýðir náttúrulega bara það að skoðun þín er varla að fara að breytast ef þér fannst hún kjánaleg áður fyrr. Bale geltir enn út úr sér setningar með opinn kjaftinn eins og hann eigi erfitt með að anda út um nefið undir grímunni. Ég býst við að röddin í Bane muni einnig skipta fólki í tvær fylkingar, ekki síst hjá þeim sem horfa á myndina textalausa (eins og ég upphaflega gerði). Hún angraði mig sama og ekkert og þó eitt eða tvö orð hafi stöku sinnum farið framhjá manni er skítlétt að ná samhengi setninga. Ein hugrakkasta ákvörðunin hjá Nolan til þessa er að leyfa illmenni í 250 dollara Hollywood-mynd að tala með slíkum dósahljóm, án þess að hann hljómi of döbbaður. Mér fannst ég samt  stundum skynja einhverja Sean Connery eftirhermu þarna, eða er það bara ég?

Það þýðir samt lítið annað en að vorkenna greyinu sem mun sjá um reboot-ið. Að feta í fótspor Nolans er kröfuharða en fyrir leikstjórann að toppa sig sjálfan. Vörumerkið kemst ekki ofar en þetta í virðingarstigi. Það er bara endalaust hægt að lofa þessa mynd. Afþreyingargildið brestur aldrei, leikararnir gefa sig alla fram, tæknivinnslan er til fyrirmyndar, tónlistin vekur upp annaðhvort gæsahúð eða holdris og bara samsetningin yfir höfuð unnin af ótvíræðri fagmennsku. Á mörgum sviðum er þessi mynd betri en forveri sinn en á öðrum ekki. Gagnslaust er þó að bera bestu einingarnar saman þegar þessi magnaða þrenning er komin í hendurnar í allri sinni dýrð. Og ef The Avengers var sumarbíó eins og það gerist skemmtilegast, þá er The Dark Knight Rises stórmynd eins og ég vil helst hafa þær. Bónerinn rís!


(10/10!!)