Kvikmyndin The Together Project eftir Sólveigu Anspach hefur verið valin til þátttöku á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí nk. Myndin er sú síðasta sem Sólveig leikstýrði, en hún lést í ágúst sl. eftir langa baráttu við krabbamein, 54 ára að aldri.
Kvikmyndahátíðin í Cannes er ein sú virtasta í heimi. The Together Project verður heimsfrumsýnd í Cannes og keppir til verðlauna í þeim flokki hátíðarinnar sem kenndur er við Director‘s Fortnight eða Quinzaine des Réalisateurs.
The Together Project er þriðja og síðasta myndin í þríleik Sólveigar um skáldið Önnu (leikin af Diddu Jónsdóttur) og syni hennar. Ferðalagið hófst með myndinni Skrapp út (e. Back Soon) sem var tekin á Íslandi og frumsýnd árið 2008 við góðar undirtektir. Í annarri mynd þríleiksins, Queen of Montreuil, er Anna orðin strandaglópur í Frakklandi ásamt syni sínum og segir meðal annars frá kynnum hennar við Agathe, unga ekkju í Montreuil, úthverfi Parísar. Í The Together Project víkur sögunni aftur til Íslands, þar sem Agathe situr alþjóðlega ráðstefnu sundkennara í Hörpu og hittir á ný Önnu og son hennar, auk fleiri eftirminnilegra persóna úr fyrri myndunum.
Myndin er samframleiðsluverkefni milli Íslands og Frakklands. Skúli Malmquist hjá Zik Zak kvikmyndum framleiðir myndina ásamt Patrick Sobelman hjá Ex Nihilo í Frakklandi.
Handritið skrifaði Sólveig Anspach ásamt Jean-Luc Gaget.
Meðal leikara í myndinni eru Didda Jónsdóttir, Samir Guesmi, Florence Loiret-Caille, Frosti Jón Runólfsson, Ingvar E. Sigurðsson og Kristbjörg Kjeld.