Þá er komið að föstudagsumfjöllun minni. Þennan föstudaginn tek ég indí myndina Living in Oblivion frá árinu 1995. Kostnaður myndarinnar var 500 þúsund dalir, og telst það vera lítið í bransanum.
Nick Reve (Steve Buscemi) er leikstjóri ódýrrar indí myndar. Hann reynir sitt besta til að láta allt ganga upp, en lendir í ýmsum vandræðum á meðan tíminn líður.
Myndinni er skipt í þrjá parta, en gerist öll á setti indí myndar sem skartar meðal annars Catherine Keener sem Nicole Springer, hinni fallegu og metnaðarfullu leikkonu og Dermot Mulroney sem hinum ákveðna tökumanni að nafni Wolf. Maður fær að fylgjast með starfsfólki myndarinnar vinna sín störf, og er því rosalega mikill “á bak við tjöldin“ fílingur út allt saman. Öll atriði eru sett upp á mjög raunverulegan máta og það er eiginlega aldrei staldrað við, það er því góður hraði á myndinni. Lýsing myndarinnar kemur mikið útfrá ljósunum sem ljósadeildin sér um, sem að er partur af þessum “á bak við tjöldin“ fíling, atriðin eru gerð raunverulegri með slíkum hlutum. Yfir í leiklistina, þá er Steve Buscemi algjörlega frábær. Besta frammistaðan hans í hverju sem er að mínu mati og reiðikastið sem hann tekur við byrjun myndarinnar er algjörlega klassískt. Catherine Keener er líka virkilega góð, hún leikur ekki þessa “týpísku“ leikkonu og því góð fjölbreytni þar á ferð. Tom DiCillo leikstýrði og skrifaði þessa kvikmynd. Hann hefur fært sig yfir í sjónvarpsþættina sem leikstjóri eftir að hafa gert nokkrar myndir, en Living in Oblivion er það besta sem ég hef séð eftir hann. Myndin er mjög vel tekin upp, það er flakkað á milli upptökuvéla og leikið sér með svarthvítt. Klipping og tónlist myndarinnar er til fyrirmyndar sömuleiðis.
Ég virkilega mæli með þessari mynd, allt mjög gott við hana og svo auðvitað skemmtilegur ’90s fílingur í gangi.