Finnska kvikmyndin Little Wing hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2017 sem afhent voru fyrr í kvöld, miðvikudagskvöldið 1. nóvember. Kvikmyndin er fyrsta mynd leikstýrunnar Selmu Vilhunen í fullri lengd. Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni Toronto Film Festival árið 2016 og hefur síðan verið sýnd á yfir 20 kvikmyndahátíðum víða um heim.
Í tilkynningu frá Bíó paradís segir að kvikmyndaverðlaunin séu veitt mynd sem hefur mikið menningarlegt gildi, er framleidd á Norðurlöndum, er í fullri lengd og gerð til sýningar í kvikmyndahúsum. Verðlaunaupphæðin nemur 350 þúsund dönskum krónum og skiptist jafnt milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda. „Það undirstrikar að kvikmyndagerð sem listgrein er fyrst og fremst afurð náins samspils þessara þriggja þátta,“ segir í tilkynningunni.
Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu segir: „Í Little Wing fangar Selma Vilhunen stórbrotnar og sammannlegar tilfinningar með látlausum stílbrögðum og sýnir að sem leikstjóri og handritshöfundur býr hún yfir óvenju mikilli næmni. Vilhunen leikur sér á hugvitsamlegan hátt að dæmigerðri framsetningu á stúlkum og ungum konum í
kvikmyndum og í hvert sinn sem áhorfandinn skynjar yfirvofandi ógn við söguhetjuna Varpu lætur Vilhunen hana sveigja fimlega hjá klisjunum, bæði í bókstaflegri og yfirfærðri merkingu. Varpu er indæl og dugmikil stelpa sem flakkar um í heimi þar sem persónurnar fá að vera raunverulegar manneskjur með góðar og slæmar hliðar,
og þar sem umhverfið í kringum þær gegnir hlutverki leiktjalda en fær aldrei að verða ráðandi þema. Í Little Wing hefur dómnefndin séð svipmyndir hreinnar orku og kvikmyndalegs mikilfengleika, og okkur langar að sjá meira.“
Hjartasteinn var tilnefnd fyrir Íslans hönd.
Hér er myndband þar sem fjallað er um allar tilnefndar myndir.