Lilly neitar að fara í heimasóttkví – „Ekki góður dagur fyrir aðdáendur Lost“

Kanadíska leikkonan Evangeline Lilly segir það útilokað að hún og fjölskylda hennar fari í heimasóttkví ef þess þarf. Lilly er þekktust fyrir hlutverk sín úr Lost, Hobbitanum og Ant-Man and the Wasp, svo dæmi séu nefnd.

Nýlega hefur leikkonan orðið fyrir miklu aðkasti á samfélagsmiðlum sínum eftir að hún birti færslu á Instagram og gaf í skyn að hún færi ekki eftir neinum tilmæla í ljósi COVID-19.

https://www.instagram.com/p/B9zT034AEBi/

Fylgjendur Lilly gagnrýndu hana harðlega í athugasemdunum við færsluna.

„Engin einangrun vegna kórónaveirunnar?“ spyr einn fylgjandi. Þá svarar leikkonan skýrt: „Ekki þessi fjölskylda.“

„Það er hægt að vera smitberi og einkennalaus.“ segir annar.
Þá líkti leikkonan kórónaveirunni við hefðbundna flensu og sagði COVID-19 vera kosningabrellu. „Það er alltaf „eitthvað“ að ganga á hverju kosningaári,“ segir hún og telur hún nauðsynlegt að leiðtogar og valdafólk heimsins nýti ekki veirufaraldurinn sem leið til að öðlast meira afl og ræna af öðrum frelsið.

Annar fylgjandi bendir leikkonunni á þá staðreynd að Daniel Dae Kim, fyrrum mótleikari hennar úr Lost, greindist með COVID-19 á sama degi og Lilly neitar að fara í einangrun. „Ekki góður dagur fyrir aðdáendur Lost,“ skrifar einn Twitter-notandi.