Liam Hemsworth í Expendables 2

Nú bætist eitt nafnið enn á sívaxandi kreditlista Expendables 2, en í þetta skiptið er ekki um að ræða útbrunna miðaldra hasarstjörnu. Ástralska sápustjarnan unga, Liam Hemsworth (bróðir Chris „Thor“ Hemsworth) mun taka að sér hlutverk í myndinni – ef ég ætti að giska, son einhvers. Væntanlega er þetta viðleitni til þess að hafa eitthvað fyrir augað ef einhverjir kvenmenn skyldu slysast inn í bíósalinn (talandi um konur – verða einhverjar í þessari mynd?). Staðfestir að snúa aftur eru Sylvester Stallone, Jason Statham, Mickey Rourke, Jet Li, Dolph Lundgren, Terry Crews og Randy Couture; við munu bætast Jean-Claude Van Damme, Chuck Norris, Bruce Willis, og Arnold Schwarzenegger. Tökur munu hefjast í Búlgaríu von bráðar, og myndin á að koma út næsta sumar

Stallone mun sem fyrr segir ekki leikstýra aftur, heldur fer Simon West (Con Air) með stjórnartaumana. Enn eru orðrómar um að nöfn á borð við Nicholas Cage og John Travolta muni bætast í hópinn, en ég veit ekki hvað þeir ættu að gera þarna, er þetta ekki að verða komið alltof mikið af leikurum? Endar þetta ekki þannig að hver fær nokkrar línur og eitt hasaratriði, og persónusköpun verður engin? En persónusköpun er kannski ekki það sem áhorfendur flykkjast inn til að sjá í þessari mynd…