Þó að Passengers leikarinn Chris Pratt sé stórstjarna í dag, þá var leiðin stundum grýtt á toppinn, og hann þurfti eins og margir aðrir, að láta sér lynda að leika í ýmsum misjöfnum myndum í upphafi ferilsins – mörgum jafnvel skelfilega lélegum, eins og hann orðar það sjálfur.
Í nýju viðtali við bandaríska tímaritið Vanity Fair segir Pratt frá því þegar hann lék aðalhlutverkið í hroll – grín – stuttmynd sem tók 10 daga að taka upp og fjallaði um „óþolandi sjálfhverfan kvikmyndaleikstjóra sem reynir að sannfæra hrætt tökuliðið um að halda áfram að vinna að myndinni sem þau eru að taka upp, þrátt fyrir að þau séu elt og kvalin af dularfullum morðingja.“
Heiti myndarinnar er Cursed Part 3, frá árinu 2000.
Þegar Pratt er beðinn um að lýsa myndinni þá viðurkennir hann einfaldlega að þetta sé „versta mynd sem hann hefur nokkurn tímann séð“.
Pratt, sem er 37 ára gamall, sló í gegn í sjónvarpsþáttunum Parks and Recreation, en er núna þekktur fyrir leik sinn í stórmyndaseríum eins og Jurassic World og Guardians of the Galaxy.