Framleiðslufyrirtækið New Age Icelandic Films leitar nú að leikurum af báðum kynjum fyrir stuttmyndina Ólgusjór eftir Andra Frey Ríkarðsson sem áætlað er að fari í tökur í júlí á þessu ári.
Myndin gerist öll úti á sjó á litlum handfærabáti við strendur Snæfellsness. Sagan á sér stað í nútímanum og fjallar um par sem vinna saman undir stjórn illskeytts yfirmanns.
Karlar á aldrinum 21-25 og konur á aldrinum 25-30 eru hvött til að sækja um, en áheyrnarprufur verða haldnar þann 14. mars næstkomandi. Áhugasamir eru beðnir um að senda póst á unnsteinn@naif.is. Meðfylgjandi þarf nýlega ljósmynd ásamt grunnupplýsingum og ferilskrá sem miðar að verkefnum sem tengjast leiklist.
Aðstandendur myndarinnar hafa gert stuttmyndir og tónlistarmyndbönd sem hafa ratað á allar helstu kvikmyndahátíðir landsins. Má þar nefna stuttmyndirnar Yfir horfinn veg eftir leikstjóra og handritshöfund myndarinnar, Samstíga eftir framleiðanda myndarinnar og Eylíen eftir aðalframleiðanda myndarinnar.
Rétt er að taka fram að ritstjóri Kvikmyndir.is er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur umræddrar stuttmyndar.