Leikstjóri Love Story látinn

Arthur_Hiller-1970Arthur Hiller, Óskarstilnefndur leikstjóri sígildra mynda frá áttunda áratug síðustu aldar, mynda eins og verðlaunamyndarinnar Love Story, The Out-of-Towners og The In-Laws, er látinn, 92 ára að aldri.

Hiller fæddist í Alberta í Kanada, og vann sem leiðsögumaður í sprengjuflugvélum í konunglega kanadíska hernum í Seinni heimsstyrjöldinni.

Eftir að styrjöldinni lauk þá starfaði hann sem framleiðandi og leikstjóri í sjónvarpsiðnaðinum í Kanada. Hann flutti til Bandaríkjanna árið 1955,  og hóf fljótlega störf við að leikstýra einstökum þáttum í sjónvarpsþáttaröðum eins og Playhouse 90, Perry Mason og Gunsmoke, sem og prufuþættinum af The Addams Family.

Ferill Hiller í kvikmyndum hófst árið 1957 með Dean Stockwell rómansinum The Careless Years, og næstu 50 árin leikstýrði hann fjöldamörgum myndum. Hiller lét sig einnig félagsmál kvikmyndagerðarmanna varða um árabil.

Hiller lést aðeins tveimur mánuðum eftir að eiginkona hans til 68 ára kvaddi þennan heim, Gwen Hiller.

Hér má lesa meira um Hiller.