Fréttir úr eftirvinnslunni á framtíðarmyndinni Dredd boða ekki gott. Pete Travis, leikstjóri myndarinnar hefur víst verið rekinn úr klippiherberginu, og framleiðendur tekið stjórnina þar. Þettalofar ekki góðu uppá gæði myndarinnar, þar sem Karl Urban leikur hinn ósigranlega Judge Dredd sem er hluti af löggæsluvaldi í ónefndri stórborg í framtíðinni, og tekur að sér hlutverk lögreglu, dómara og aftakara.
Framleiðendur myndarinnar eru þó engir aukvisar, en handritshöfundur hennar og meðframleiðandi Alex Garland hefur víst tekið stjórnina í klippingunni, en hann á meðal annars að baki handritin að myndunum 28 Days Later, Sunshine og Never Let Me Go. Hann hefur hinsvegar ekki leikstýrt mynd áður, en jafnvel gæti farið svo að hann sæki um að vera titlaður meðleikstjóri á myndinni sem væri mjög óvenjulegt.
Tökum á myndinni lauk fyrr á árinu, en ekki er lokað fyrir möguleikann á því að halda í aukatökur (reshoots) og þá er ekki víst hver myndi halda um stjórnvölinn þar, Travis, Garland, eða einhver annar. Óvíst er að hve miklu leiti ósætti ríkir, og segja sumir að Travis sé ennþá leyft að fylgjast með í gegnum netið hvernig gangi með vinnsluna á myndinni.
Vonandi eru allir að hugsa um bestu hagsmuni myndarinnar, en reynslan sýnir að myndir þar sem leikstjórinn ræður ekki lokaafurðinni heppnast sjaldan vel. Stórar myndir sem hafa nýlega lent í þessu eru t.d. G.I. Joe: The Rise of Cobra, og svo Prince of Persia – The Sands of Time. Önnur þeirra gekk vel í miðasölunni, hin ekki, en allir geta held ég verið sammála um að hvorug var nein lystismíð.