Leikaravalið í ‘Knives Out 2’ ekki af verri endanum

Enn fjölgar fínum leikurum sem búið er að ráða í framhaldsmynd Knives Out. Leikstjórinn og höfundurinn Rian Johnson snýr aftur með stjörnuprýdda sögu af háttprúða spæjaranum Benoit Blanc (Daniel Craig), sem stendur frammi fyrir fjölda fólks og nýrri ráðgátu. Johnson framleiðir myndina með streymisrisum Netflix og áætlað er að hefja tökur í Grikklandi í sumar.

Í vikunni greindi The Hollywood Reporter frá því fyrst að leikkonan Kathryn Hahn hafi verið ráðin í leikarasarpinn. Hana þekkja eflaust flestir úr Step Brothers, Bad Moms, Parks & Recreation og nýverið WandaVision í hlutverki Agöthu ‘All Along’ Harkness.

Daniel Craig er enn sem komið eini leikarinn úr fyrri myndinni sem snýr aftur en auk Hahn má búast við þeim Edward Norton, Janelle Monáe og Dave Bautista, en búast má við fleiri viðbótum í liðsheildina á næstu dögum. 

Áætlað er að ‘Knives Out 2’ (sem mun að öllum líkindum bera annan titil) verði gefin út á Netflix á næsta ári.