Ryan Reynolds, sem sló eftirminnilega í gegn sem ofurhetjan Deadpool, hefur nú snúið sér að næsta verkefni, en þar er um að ræða kvikmyndina The Hitman’s Bodyguard, eða Lífvörður leigumorðingjans, í lauslegri þýðingu.
Tökur myndarinnar hófust í dag, en með önnur helstu hlutverk fara Samuel L. Jackson, Gary Oldman, Elodie Yung og Salma Hayek. Leikstjóri er Patrick Hughes (Expendables 3).
The Hitman’s Bodyguard er hasar-gamanmynd um besta lífvörð í heimi, sem Reynolds leikur, og nýjan skjólstæðing hans: alræmdan leigumorðingja. Þeir hafa hingað til verið við sitthvorn enda byssukúlunnar, ef svo má segja, í áraraðir. Þeir hata hvorn annan eins og pestina. En núna sitja þeir uppi með hvorn annan og hafa einn sólarhring til að komast frá Englandi til Haag í Hollandi. Það eina sem hindrar þá á för þeirra, er allt sem morðóður austur-evrópskur einræðisherra getur mögulega beint gegn þeim.
Myndin er næsta mynd Reynolds eftir gríðarlega velgengni Deadpool, en hún er orðin tekjuhæsta bannaða mynd ( R rated ) sögunnar. Deadpool 2 er nú þegar í undirbúningi, en tökur hennar gætu hafist fyrir lok þessa árs.