The Hunger Games leikkonan Jennifer Lawrence er hæst launaði aðilinn úr afþreyingarstétt sem tilnefndur er til Óskarsverðlauna í ár, samkvæmt samantekt Forbes viðskiptablaðsins .
Forbes segir að Lawrence, sem tilnefnd er til verðlaunanna fyrir leik sinn í myndinni Joy, hafi þénað 52 milljónir Bandaríkjadala, eða 6,7 milljarða íslenskra króna, á tímabilinu júní 2014 til júní 2015. Þetta er um tvisvar sinnum meira en sá sem kemur næstur á eftir, Leonardo Dicaprio, en hann þénaði 29 milljónir dala á sama tímabili. DiCaprio er tilnefndur í ár fyrir leik sinn í The Revenant.
Þriðji á lista er svo Matt Damon, sem tilnefndur er fyrir leik sinn í The Martian, en hann þénaði 25 milljónir dala á tímabilinu.
Þó að laun Lawrence séu dágóð, þá kemst hún ekki með tærnar þar sem annar leikari sem ekki er á þessum Óskarslista í ár, Robert Downey Jr., hafði hælana, en hann þénaði 80 milljónir dala á tímabilinu, einkum fyrir störf sín fyrir Marvel, og þá aðallega Avengers: Age of Ultron.
Þess má geta að laun Lawrence eru ekki öll vegna leikstarfa. Hún er einnig andlit tískufyrirtækisins Dior.
Tilnefningin fyrir Joy er fjórða Óskarstilnefning leikkonunnar, en hún er aðeins 25 ára gömul, og er yngsta leikkona í sögunni til að fá fjórar tilnefningar. Hún vann Óskarsverðlaunin árið 2012 fyrir leik sinn í Silver Linings Playbook.