Breski leikarinn Jude Law er í fantaformi þessa dagana og raðar inn hlutverkum í stórmyndum. Nýverið var hann ráðinn í hlutverk Albus Dumbledore á yngri árum, í myndinni Fantastic Beasts: The Crimes Of Grindelwald, og síðustu fregnir herma að hann sé um það bil að næla sér í hlutverk í Marvel ofurhetjumyndinni Captain Marvel, þar sem Brie Larson fer með titilhlutverkið.
Larson leikur Carol Danvers, hæfileikaríkan tilraunaflugmann, sem verður fyrir því óláni að erfðaefni hennar blandast saman við erfðaefni Kree stríðsmannsins Mar-Well. Í kjölfarið fær hún ofurkrafta, eins og til dæmis að hún getur flogið, hún fær aukinn styrk, hún getur lagað meiðsli, og hún getur dregið til sín orku, og endurhlaðið sig, að því er fram kemur í Empire kvikmyndaritinu.
Þó að ráðning Law hafi ekki verið staðfest af Marvel, þá er útlit fyrir að Law muni leika Dr. Walter Lawson, öðru nafni Mar-Well, sem á endanum verður lærifaðir Danvers þegar hún er að læra á nýfengna ofurkrafta sína.
Samuel L. Jackson mun birtast í myndinni sem Nick Fury og Ben Mendehlson mun leika þorpara. Leikstjórar eru Anna Boden og Ryan Fleck.
Stefnt er að frumsýningu myndarinnar 8. mars 2019.
Law má sjá á næstunni í nýjustu kvikmynd Woody Allen, og býr sig nú undir að leika í njósnatryllinum The Rhythm Section. Myndin sem minnst var á í byrjun, Fantastic Beast framhaldið, kemur í bíó 16. nóvember á næsta ári.