Millenium Entertainment hefur keypt sýningarréttinn í Bandaríkjunum á nýjustu mynd Shia LaBeouf, The Necessary Death of Charlie Countryman, nú fimm mánuðum eftir að myndin var frumsýnd á Sundance hátíðinni í janúar sl., samkvæmt frétt Deadline vefsíðunnar.
Auk LaBeouf fara þau Evan Rachel Wood, Mads Mikkelsen og Til Schweiger með helstu hlutverk. Myndin er fyrsta mynd sænska auglýsingaleikstjórans Fredrik Bond á ensku.
Gagnrýnendur á Sundance hátíðinni heilluðust af andrúmslofti myndarinnar sem einkennist af blöndu af svörtum húmor, ofbeldi og ást, og nú horfa menn með spenningi til þess hvað Bond tekur sér næst fyrir hendur.
Til dæmis þá kom hann til greina þegar Disney var að leita að leikstjóra fyrir Pirates of the Caribbean 5.
Í The Necessary Death of Charlie Countryman leikur LaBeouf ungan mann sem fer til Búkarest og á leiðinni þangað í flugvélinni hittir hann dularfulla konu og verður ástfanginn af henni.
„Í þessari frumraun sinni, þá hefur Fredrik Bond búið til stílfagra, og spennandi mynd sem grípur mann frá fyrstu mínútu og sleppir aldrei takinu,“ sagði forstjóri Millennium, Bill Lee.
Næst fáum við að sjá LaBeouf í Nymphomaniac eftir Lars von Trier.