Kynlífið verður ekkert mál

Charlie Hunnam, breski leikarinn sem ráðinn hefur verið í hlutverk Christian Grey í mynd sem gera á eftir hinni erótísku metsölubók Fifty Shades of Grey, oft kölluð „mömmuklám“, segist ekki hræðast leik í kynlífssenum myndarinnar.

hunnam

Hunnam, sem er 33 ára gamall, leikur hinn kynferðislega brenglaða athafnamann og milljarðamæring Christian Grey, en ástkonu hans, menntaskólanemann Anastasiu Steele, leikur Dakota Johnson.

Hunnam segir að tilvonandi senur í myndinni verði barnaleikur í samanburði við tökur sem hann fór í fyrir dramaseríuna Queer as Folk fyrir 14 árum síðan, en það var stuttsería sem gerð var fyrir sjónvarpsstöðina Channel 4 í Bretlandi.

„Ég fékk mína eldskírn þar hvað varðar kynlíf fyrir framan myndavélar, strax í byrjun míns leikferils,“ sagði Hunnam við the Associated Press, þegar hann var að kynna Sons of Anarchy seríuna sem nú er að fara af stað á ný í Bandaríkjunum. „Ég lék aðalhlutverkið í þessum bresku míni seríum Queer as Folk, þar sem ég lék ungan samkynhneigðan mann, og þar voru ótrúlegar, og djarfar kynlífssenur … núna er ég 16 árum eldri og þroskaðari, þannig að ég kvíði því ekki að þær verði mikið vandamál. Þetta er eins og annað, bara spennandi áskorun.“

Leikstjóri Fifty Shades of Grey er Sam Taylor – Johnson, en myndin verður frumsýnd í ágúst á næsta ári.