Óskarsverðlaunamyndin Joker, með Joaquin Phoenix í aðalhlutverki, var sú mynd sem mest var kvartað yfir í Bretlandi á síðasta ári. Samkvæmt Breska flokkunarráðinu (e. British Board of Film Classification (BBFC)) bárust ótalmargar kvartanir frá áhorfendum vegna myndarinnar, en allar voru þær vegna þess að menn töldu að aldurstakmarkið 15 ára væri of lágt vegna þess hve ofbeldisfull myndin er.
Í tilkynningu BBFC er þeirri gagnrýni svarað og telur ráðið 15 ára stimpilinn eiga rétt á sér, þó það hafi í fyrstu ekki verið auðveld ákvörðun hjá nefndinni. „Í þessari mynd sjást hrottalegar hnífsstungur og skotárásir með tilheyrandi meiðslum og blóði, en ekki í þeim mæli sem krefjast 18 ára [stimpils],“ segir í tilkynningunni.
Eins og mörgum er kunnugt hefur Joker notið ótrúlegra vinsælda um allan heim og er ein umtalaðasta stórmynd síðustu ára. Myndin hlaut fjölda verðlauna og vann þar á meðal tvær Óskarsstyttur (og hlaut 11 tilnefningar samtals), fyrir besta leikara í aðalhlutverki (Phoenix) og bestu frumsömdu kvikmyndatónlist í umsjón Hildar Guðnadóttur.
Á Íslandi var Joker þriðja tekjuhæsta kvikmyndin árið 2019, með rúmar 72 milljónir í tekjur, og tæplega 52 þúsund bíógesti.