Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs til Noregs í fyrsta sinn

Louder than Bombs frá Noregi hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2016. Þetta er í fyrsta skipti sem norsk mynd hlýtur verðlaunin. Þeir Joachim Trier (leikstjórn og handrit), Eskil Vogt (handrit) og Thomas Robsahm (framleiðsla) deila með sér tæplega sex milljón króna verðlaunafé.

louder-than-bombs

Myndin var frumsýnd í Bíó Paradís 15. apríl sl. í samstarfi við Norræna húsið og Norræna kvikmyndadaga.

Dómnefnd hafði þetta að segja um myndina í tilkynningu: „Hið listræna framtak sem Joachim Trier og teymið hans hafa tekið sér fyrir hendur setur frásagnarlistina upp á nýtt stig. Byggingin er flókin, tilfinningarnar eru brotnar til mergjar og klisjum er sundrað; allt þetta ætti að gera myndina að skyldunámi í kvikmyndaskólum um heim allan.“

Söguþráður myndarinnar er eftirfarandi: Sýning á verkum ljósmyndarans Isabelle Reed, þremur árum eftir ótímabæran dauða hennar, verður til þess að elsti sonur hennar Jonah kemur aftur heim til föður síns, Gene, og yngri bróður síns, Conrad. Gene reynir hvað hann getur að mynda tengsl við syni sína, en þeir eiga erfitt með að sættast við tilfinningar sínar við konuna, sem þeir muna á svo ólíkan hátt.