Kvikmyndasmiðja RIFF er vinsæl í ár

Í ár sóttu hvorki meira né minna en 80 umsækjendur um pláss á Kvikmyndasmiðju (Talent Lab) RIFF en til samanburðar þá voru 38 umsækjendur í fyrra. Umsjónarmaður Kvikmyndasmiðju RIFF er leikstjórinn Marteinn Thorsson.

Kvikmyndasmiðja RIFF er vettvangur fyrir hæfileikafólk á sviði kvikmynda til að bæta við þekkingu sína og styrkja tengslanetið. Þar hlýða þátttakendur á fyrirlestra, vinna að handritum og söluræðum (pitchum) og að auki keppa stuttmyndir þátttakenda um Gullna eggið, en myndirnar verða sýndar á meðan RIFF fer fram. Þátttakendur fá einstakt tækifæri til þess að hitta reynda leikstjóra og framleiðendur úr kvikmyndageiranum sem koma á Alþjóðlega kvikmyndahátíð ár hvert. Í ár fer kvikmyndasmiðjan fram dagana 3.-7. október.

Umsækjendur eru hvaðanæva að úr heiminum, frá Sri Lanka til Bermúda, Ísrael til Kína. Margir umsækjenda eru frá Bandaríkjunum og Kanada en aðeins fjórir eru frá Íslandi. Umsækjendur eru á öllum aldri en allir eiga þeir það sameiginlegt að vera kvikmyndagerðarmenn sem vilja þróast sem listamenn og velja Kvikmyndasmiðju RIFF sem skref á þeirri leið.

Sem starfsmaður á fyrri RIFF hátíðum get ég lítið annað gert en að mæla með Kvikmyndasmiðjunni fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn sem vilja taka næsta skref í kvikmyndabransanum. Aðsóknin í ár sýnir það svart á hvítu að smiðjan er virtur skóli.