Einkunn: 4/5
Ein af stærstu sumarmyndum þessa árs er kvikmyndin Pacific Rim en það er stórleikstjórinn Guillermo Del Toro sem leikstýrir myndinni. Með aðalhlutverk í myndinni fer Charlie Hunnam sem margir kannast eflaust við úr þáttunum Sons of Anarchy. Honum til aðstoðar eru svo þeir Idris Elba, Charlie Day, Burn Gorman og Rinko Kikuchi.
Pacific Rim er stórmynd sumarsins í orðsins fylgstu merkingu. Allt við myndina er stórt, hvort sem það eru stór geimveruskrímsli sem koma upp úr sjónum eða stór vélmenni sem mannfólkið hannar til þess að berjast við geimveruskrímslin og þannig koma í veg fyrir að þau leggi undir sig heiminn. Að því sögðu verður þó að koma því á framfæri að Pacific Rim er nokkuð meira en stórkostleg bardagaatriði eða tæknibrellu rússíbani, Pacific Rim er mynd með karakter og fær þig til að kaupa það sem hún er að selja. Karakterarnir eru áhugaverðir og þrátt fyrir geggjuð geimveruskrímsli og risavélmenni þá eru það í rauninni karakterarnir sjálfir og karaktersköpunin sem heldur myndinni gangandi og tryggja gott flæði hennar. Því má segja sem svo að handritið hafi verið nokkuð gott og hélt áhorfendum við efnið í þessa rúmlega tvo klukkutíma sem myndin var. Charlie Hunnam stendur sig vel og virðist svo sannarlega geta haldið uppi stórmynd sem þessari. Þá verður að nefna Charlie Day sem var algjör senuþjófur sem vísindamaðurinn Dr. Newton. Hvað varðar myndatökuna sjálfa sem og sviðsmyndina þá er útlit myndarinnar vel stílfært og margar senurnar nokkuð stórbrotnar en ber þar helst að nefna senu nokkra þar sem lítil asísk stelpa hleypur undan risavélmenni í mannlausri stórborg. Sú sena var virkilega vel stílfærð og mjög í anda del Toro.
Eftir sem áður þurfa áhorfendur að slökkva á raunveruleikaskyninu til þess að geta notið myndarinnar í botn og því má segja að handritið og leikstjórnin fari svolítið yfir strikið þegar kemur að lögmálum eðlisfræðinnar. Það að mannfólkið ákveði að byggja risa vélmenni til þess að berjast við risa geimverur, í stað þess að beita t.d. orrustuþotum, tölvustýrðum sprengjum eða hvað það nú er sem til er í vopnabúrum stórveldanna, er ef til vill full langt gengið. Að auki er e.t.v. erfitt fyrir marga að kaupa þessa hugmynd með að tengja manneskjurnar við vélmennin með einhverskonar taugaboðum þar sem tveir stjórnendur vélmennisins tengjast saman og deila minningum sínum og í raun heilastarfsemi sinni, með hver öðrum. Þá er ekki beint hægt að segja að kvikmyndin nái mikilli dýpt eða tilfinningalegri tengingu við áhorfendur en það var eflaust aldrei takmarkið.
Pacific Rim er poppkornsmynd eins og þær gerast bestar og gefur áhorfendum svo sannarlega það sem þeir komu til að sjá; risavélmenni að berjast við risa geimverur. Svo lengi sem áhorfendur geta leyft sér að slökkva á raunveruleikaskyninu er myndin virkilega skemmtileg og á heildina litið ein besta afþreyingarmynd sumarsins.