Einkunn: 4/5
Það er óhætt að fullyrða að beðið hefur verið eftir Iron Man 3 með mikilli eftirvæntingu. Hér er á ferðinni þriðja myndin um járnmanninn Tony Stark sem leikinn er sem fyrr af Robert Downey Jr. Þá eru þau Gwyneth Paltrow og Don Cheadle á sínum stað en auk þeirra bættust í hópinn þeir Guy Pearce, Ben Kingsley og Jon Favreau. Með leikstjórnina fer Shane Black en hann er e.t.v hvað þekktastur fyrir handritsskrif sín en ber þar helst að nefna Lethal Weapon, The Last Boyscout og Kiss Kiss Bang Bang.
Eftir atburðina í The Avengers, þar sem Tony Stark þurfti að bjarga heiminum frá geimveruárás, er hann í nokkurskonar sálfræðilegu áfalli. Hann á erfitt með svefn, fær kvíðaköst og gerir fátt annað en að sitja í tæknilega kjallaranum sínum og hanna viðbætur við Iron Man búninginn. Af þessu leiðir að samband hans við Pepper stendur höllum fæti en Pepper reynir að halda andlitinu meðan hún stýrir fyrirtæki þeirra, Stark Industries. Á sama tíma er líftæknifyrirtækið AIM kynnt til sögunnar en Tony Stark virðist tengjast því fyrirtæki með einum eða öðrum hætti og á það eftir að hafa mikil áhrif á framgang mála. Þá eru samskipti Tony Stark við vini sína hjá hernum og við umheiminn í heild sinn lítil sem engin en á sama tíma standa Bandaríkin frammi fyrir ógn frá manni sem kallast The Mandarin. Þegar ógnin snertir svo Tony með beinum hætti ákveður hann að svara fyrir sig og hefst þá heljarinnar atburðarás sem leiðir til þess að Tony þarf að enduruppgvöta hver hann er á sama tíma og hann berst fyrir öllu því sem honum er kært.
Einn af helstu styrkleikum Iron Man 3 er handritið sjálft. Tony Stark sem Iron Man er gerður mannlegri heldur en í Iron Man 2 og það var gaman að sjá hann án búningsins meiripart myndarinnar. Það gaf í raun myndinni mannlegri tón og sýndi milljarðamæringinn sem mannveru með sína kosti og galla. Söguframvindan er ótrúlega góð og þessar rúmlegu tvær klukkustundir flugu hjá á meðan að myndin dró mann dýpra og dýpra niður í Marvel myndasöguheiminn.
Robert Downey Jr. er sem fyrr fæddur í þetta hlutverk sem Tony Stark og Don Cheadle og Gwyneth Paltrow þjóna sínum hlutverkum einnig vel. Þá er mikið gleðiefni að Guy Pearce sé farinn að láta sjá sig oftar á hvíta tjaldinu en flestum er eflaust kunnug frammistaða hans í Lawless. Þó svo að hann nái e.t.v. ekki sömu hæðum í Iron Man 3 þá er frammistaða hans samt sem áður mjög góð. Hrósið fer hins vegar klárlega til Ben Kingsley sem gjörsamlega fer á kostum sem The Mandarin og stelur sífellt senuni þegar færi gefst til. Á heildina litið skapa allir þessir leikarar góða heild, sambandið og samtölin þeirra á milli voru trúverðug og hjálpuðu til við að fleyta myndinni áfram.
Iron Man 3 er 3D mynd en það virðist vera að myndir séu settar í 3D nú til dags einungis til að geta auglýst þær sem 3D myndir. Þetta virðist því miður hafa verið raunin þegar kemur að Iron Man 3 en þannig var 3D tæknin engan veginn nýtt og var algjörlega óþörf. Það hefði svo sannarlega verið betra að geta skilið óþægilegu 3D plastgleraugun bara eftir heima í stað þess að hafa þau sitjandi á nefinu til einskis. Þá eru allar þær tæknilegu útfærslur sem Tony Stark framkvæmir e.t.v. nokkuð óraunverulegar og eflaust einhverjir sem geta látið það fara í taugarnar á sér. Að auki eru vísindin sem líftæknifyrirtækið AIM hefur þróað mátulega ótrúverðug. Það má því segja sem svo að til að njóta Iron Man 3 þarf að skilja raunveruleika gleraugun eftir á borðinu heima og í staðinn setja upp 3D afþreyingargleraugun í staðinn.
Iron Man 3 er nákvæmlega það sem hún á að vera, afþreying sem fær mann til þess að muna af hverju það er gaman að fara í kvikmyndahús. Hún heldur áhorfandanum við efnið frá byrjun til enda og með góðu handriti og leikstjórn er söguframvindan fullnægjandi. Þrátt fyrir að hafa verið e.t.v. dýpri en Iron man 2 hvað karaktersköpun varðar er ekki hægt að segja að Iron Man 3 sé hádramatísk og komplex enda þarf hún ekki að vera það. Iron Man 3 er hröð, fyndin, flott og skemmtileg með dass af karaktersköpun og söguþræði. Á heildina litið algjör adrenalín bomba sem hittir beint í mark og gefur tóninn fyrir það stóra kvikmyndasumar sem er í vændum.