Einkunn: 2/5
Kvikmyndin Broken City var frumsýnd hér á landi þann 15. mars síðastliðinn og hefur því verið í sýningu í íslenskum kvikmyndahúsum í rúmlega viku. Myndin skartar þeim Russell Crowe og Mark Wahlberg í aðalhlutverkum ásamt þeim Catherine Zeta-Jones, Barry Pepper og Kyle Chandler í aukahlutverkum. Leikstjóri myndarinnar er hinn ungi Allen Hughes en hann á að baki myndir á borð við The Book of Eli og From Hell. Myndin er talin hafa kostað 55 milljónir Bandaríkjadollara í framleiðslu og því má segja að hér sé um að ræða alvöru Hollywoodmynd þar sem ekkert hefur verið til sparað.
Í byrjun fáum við að kynnast söguhetjunni Billy Taggart, leikinn af Mark Wahlberg, sem starfar sem lögreglumaður í New York og er sakaður um morð en sýknaður áður en málið fer fyrir dóm. Þrátt fyrir það er hann beðinn að segja af sér starfinu sem lögreglumaður af borgarstjóra New York borgar, leikinn af Russell Crowe og lögreglustjóranum. Þrátt fyrir að vera óánægður með þessa kröfu frá borgarstjóranum og lögreglustjóranum, sem Billy er í ágætis sambandi við, sér Billy sig knúinn til að segja af sér. Myndin gerist svo sjö árum eftir þessa atburði en Billy starfar þá sem einkaspæjari og lifir býr með kærustu sinni sem hann hafði verið með fyrir sjö árum síðan. Lífið gengur sinn vanagang fyrir Billy sem strögglar við að halda starfi sínu gangandi sem einkaspæjari. Hann verður svo ansi hissa þegar hann allt í einu fær símtal frá borgarstjóranum sem hann hefur ekki heyrt frá í sjö ár. Hann fer því á fund með borgarstjóranum, sem áhorfendur fá strax að sjá að er illa innrættur og valdagráðugur. Borgarstjórinn, sem er á kafi í kosningabaráttu, biður Billy að njósna um konuna sína sem hann sakar um framhjáhald og býður honum 50 þúsund dollara fyrir verkið. Billy þiggur það og upphefst atburðarrás sem dregur Billy inn í heim spillingar, ráðabruggs og glæpa meðal æðstu embættismanna New York borgar.
Það má segja sem svo að væntingarnar fyrir þessa mynd hafi verið ansi háar enda úrvalslið leikara í hverju hlutverki. Það verður þó að segjast að myndin olli undirrituðum þó nokkrum vonbrigðum. Myndin nær aldrei því flugi sem slíkar spennumyndir þurfa að ná til þess að halda áhorfandanum við efnið. Má þar einna helst kenna lélegu handriti um sem virðist hafa fengið að ráfa stjórnlaust um í höndunum á leikstjóranum, Allen Hughes. Söguframvindan er ótrúverðug og sambandið milli persónanna er það sömuleiðis. Það þarf ekkert að rökræða það að Mark Wahlberg og Russell Crowe eru algjörir fagmenn og skila hlutverkum sínum frá sér ágætlega en eins og áður segir er handritið mjög veikt, samtölin eru lélega skrifuð og því höfðu þeir félagarnir úr ansi litlu að moða. Það var þó gaman að sjá Russell Crowe bregða sér í hlutverk spillts og valdagráðugs stjórnmálamanns, eitthvað sem áhorfendur hafa ekki fengið að sjá frá honum.
Það er í raun fátt jákvætt sem hægt er að segja um myndina en það má þó segja að þetta úrvalslið leikara bjargi því sem bjargað verður. Ég hefði þó mælt með því við Mark Wahlberg að einbeita sér bara að nýjustu myndinni með Baltasar Kormáki og Russell Crowe hefði eflaust bara átt að koma aftur til Íslands í staðinn fyrir að leika í þessari mynd, þeir eru báðir vel yfir gæði hennar hafnir. Eins mikið og undirritaður vill hvetja fólk til að fara í kvikmyndahús þá get ég ómögulega sagt kvikmyndaáhugafólki að sjá þessa mynd með góðri samvisku.