Kung-Fu dvergarnir sjö fá aðalleikonu

Á næstu mánuðum eru tvær mismunandi (og afar ólíkar) útgáfur af ævintýri Mjallhvítar á leiðinni á hvíta tjaldið. Það eru fjandvinirnir Universal og Relativity sem þar keppast um, en glöggir lesendur muna að þriðja myndin byggð á Mjallhvít er einnig í vinnslu á vegum Disney. Nú berast þær fréttir að leikkonan unga Saoirse Ronan hafi verið fengin í aðalhlutverk þeirrar myndar.

Myndin sem upprunalega átti að kallast Snow and the Seven hefur nú verið útfærð til þess að fjarlægja Mjallhvítarnafnið, sennilega til að rugla áhorfendur ekki enn frekar. Myndin mun gerast í Hong Kong á19. öld, og hefur fengið nafnið The Order of the Seven. Fjallar hún um sjö meðlimi fornrar bardagalistarreglu, sem nú eru lítið annað en útlagar. Ung bresk kona að nafni Olivia Sinclair (Ronan) leitar til þeirra eftir vernd frá illri keisaraynju og þeir fá tækifæri til þess að uppfylla tilgang sinn.

Það er Michael Gracey sem mun halda um taumana á myndinni, og verður þetta fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd. Þá er sagt að hlutverk stríðsmannanna sjö verði fyllt með frægum leikurum víðsvegar að, (Kína, Japan, Rússlandi) m.a. til að styrkja stöðu myndarinnar á alþjóðamörkuðum.

Áhugavert að Disney sjái hag sinn í því að gera myndina án þess að Mjallhvít komi beinlínis við sögu, það hlýtur að þýða að þeir hafi trú á efnivið myndarinnar. Annars verður örugglega ekki erfitt að sjá minnin úr Mjallhvítarsögunni milli línanna. Saoirse Ronan er í það minnsta skemmtilegur kostur í aðalhlutverkið.