Bandaríski leikarinn Jason Alexander, þekktur af flestum sem George Costanza úr Seinfeld, þurfti aldeilis að gjalda eftir að hafa leikið í hinni stórvinsælu Pretty Woman frá árinu 1990. Í myndinni leikur hann óviðkunnanlegan lögfræðing sem reynir að beita persónu Juliu Roberts kynferðisofbeldi.
Alexander var gestur í hlaðvarpinu At Home With The Creative Coalition og sagði þar að myndin hafi upprunalega átt að vera mun drungalegri, en hlutverkið hafði engu að síður áhrif á hans daglega líf.
„Handritið var frekar skuggalegt. Það var meira dramatísk gamanmynd en rómantísk gamanmynd. Leikstjórinn Gary Marshall var með myndina í höfðinu og hvatti fólk til að búa til stundir sem voru ekki í handritinu og framkalla tilfinningar sem handritið kvað ekki um,“ segir Alexander og bætir við að tökur hafi verið erfiðar sökum þess að Marshall vildi upphaflega ekki ráða hann í hlutverkið.
Þá segir leikarinn að konur víða um heim hafi hreinlega hatað hann eftir myndina.
„Það var skrítin leið til að vera kynntur fyrir þjóðinni því ég var þekktur um heim allan sem fávitinn sem reyndi að nauðga Juliu Roberts,“ segir Alexander.
„Konur hötuðu mig. Ég gekk niður götuna og konur sögðu allt mögulegt við mig og meira. Ég var oft kýldur og konur hræktu á mig. Þetta var erfitt ár.“
Hlaðvarpið má heyra í heild sinni hér að neðan:
Pretty Woman er ein vinsælasta rómantíska gamanmynd allra tíma og hlaut Roberts Óskarstilnefningu fyrir hlutverk sitt á sínum tíma. Richard Gere leikur forríkan viðskiptamann sem sérhæfir sig í því að kaupa fyrirtæki og selja þau í bútum.
Í einni viðskiptaferðinni til Los Angeles ákveður hann að leigja sér fylgdardömu (Roberts) þar sem hann er nýhættur með kærustunni sinni og það er ekki við hæfi að maður eins og hann mæti einn á samkundur ríka og fræga fólksins. Hlutirnir þróast þó á annan hátt en ætlað var.