Það er ekki oft sem kvikmyndaáhorfendum býðst að stíga inn í tímavél og fara í fyrsta skipti í bíó á mynd sem var gerð fyrir fleiri árum. Það tækifæri mun bjóðast í nóvember þegar endurgerðin Red Dawn kemur loksins út, en tökur myndarinnar fóru fram haustið 2009, og er hún því búin að sitja á hillunni í tæp þrjú ár!
Ástæður seinkunarinnar miklu eru annarsvegar gjaldþrot og endurkoma MGM kvikmyndaversins, sem tók sinn tíma, og svo hinsvegar að þegar fyrirtækið var loksins komið í stand til þess að senda frá sér kvikmyndir aftur, þótti ekki lengur nógu sniðugt að láta kínverja vera aðal illmenni stykkisins (of mikilvægur kvikmyndamarkaður þar). Þannig að vondu kínverjunum í myndinni var bara breytt í Norður-Kóreu menn í eftirvinnslu! Það er innrás sem við óttumst öll…
Reyndar þá er vonarglæta að þessar tafir allar muni að lokum gagnast miðasölu myndarinnar, því bæði þeir Chris Hemsworth (Thor) og Josh Hutcherson (The Hunger Games) eru orðnir miklu stærri stjörnur en þeir voru þegar myndin átti upphaflega að koma út. En jæja, nú á dögunum var gefin út stikla fyrir myndina, og þar má með sanni sjá klisjurnar fljúga, er hvítu hetjurnar okkar drepa smátt og smátt alla vondu asíubúana. Hvort eitthvað verði varið í þessa mynd skal ósagt látið, en það er vissulega sérstakt að sjá þessa leikara í margra ára gömlum hlutverkum: