Klikkaðasta partígamanmynd ársins

Myndform frumsýnir gamanmyndina Bad Neighbours á morgun, miðvikudaginn 7. maí í Laugarásbíói, Smárabíói, Háskólabíói, Sam-Álfabakka, Sam-Keflavík, Selfossbíói, Ísafjarðarbíói, Króksbíói, Bíóhöllinni Akranesi og Borgarbíói Akureyri.

bad-neighbours

„Frá leikstjóra Forgetting Sarah Marshall og Get Him to the Greek kemur ein ef ekki klikkaðasta partígamanmynd ársins,“ segir í tilkynningu frá Myndformi.

Kíktu á stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Myndin segir frá nýbökuðu foreldrunum Mac og Kelly (Seth Rogen & Rose Byrne) sem eru nýbúin að koma sér fyrir með barnið sitt í rólegu úthverfi. Allt bendir í smástund til þess að þau séu búin að finna draumahúsið í hinu besta hverfi, en takturinn breytist aldeilis þegar menntaskólabræðralag flytur stuttu síðar í næsta hús. Skötuhjúin gera ráð fyrir því versta en þau eru fljót að vingast við forseta bræðralagsins, Teddy (Zac Efron), sem virkar í fyrstu almennilegur og viðkunnanlegur. Þegar Teddy svíkur loforð um að minnka hávaðann í partístandi sínu þá kallar Mac á lögregluna. Beint í kjölfarið upphefst látlaust stríð á milli litlu fjölskyldunnar og bræðralagsins. Atburðarásin fer hratt stigmagnandi og hlutirnir eru fljótlega komnir í háaloft, ekki síst þegar þessi skjálfti er farinn að hafa áhrif á samband bræðralagsins og menntaskólans.

Myndin er bönnuð innan 12 ára.

Fróðleiksmolar til gamans:

Þegar þetta er skrifað hefur Bad Neighbours verið sýnd á nokkrum forsýningum í Bretlandi og Bandaríkjunum og hafa þeir sem séð hafa sagt hana óhemjufyndna. Um þúsund manns hafa gefið henni 8,3 í einkunn á Imdb.com og þeir gagnrýnendur sem birt hafa dóma sína, t.d. hjá The Guardian, Variety og The Hollywood Reporter, eru sammála um að myndin verði risastór grínsmellur í kvikmyndahúsum heimsins þegar hún verður frumsýnd í byrjun maí.