Þann þriðja apríl næstkomandi verður ný íslensk gamanmynd frumsýnd í kvikmyndahúsum Senu, sem ber heitið Hvernig á að vera klassa drusla. Leikstjóri og handritshöfundur er Ólöf Birna Torfadóttir, en þetta er fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd.
Myndin fjallar um þrælvana sveitapíu sem grípur borgarbarnið vinkonu sína með sér út á land til að vinna á stórum sveitabæ yfir sumarið. Það rennur ekki vottur af sveitablóði í vinkonunni og í þokkabót hefur hún fengið nóg af því að vera aðhlátursefni annarra. Hún fær þar af leiðandi villandi kennslu sveitapíunnar um hvernig á að vera betri, stærri og sterkari útgáfa af sjálfri sér. Hlutverk aðalpersónanna eru leikin af Ylfu Marín Haraldsóttur, sem leikur Tönju, og Ástu Júlíu Elíasdóttur, sem leikur Kareni.
„Rauði þráðurinn er að borgarbarnið biður sveitapíuna, sem er lífsreyndari og frakkari, að kenna sér að vera meira eins og hún. Þaðan kemur titill myndarinnar,“ segir Ólöf í samtali við Kvikmyndir.is
Hún segir að hugmyndin hafi fæðst upphaflega árið 2015. „Hugmyndin var svolítið eins og þegar þú ert að fara í partý og ætlar að vera svaka töffari, en endar á að vera feimin og vandræðaleg.“
Spurð um fjármögnun verkefnisins segir Ólöf að myndin sé gerð fyrir lítinn pening ( e. low budget ), en fengist hafi fjármögnun fyrir grunnkostnaðinum frá fjárfestum. Bilið hafi síðan verið brúað með fé úr eigin vasa. Búið sé að eyða um fjórum milljónum króna í myndina. Upptökur fóru fram síðasta sumar, og lauk í september.
Nokkrir þekktir leikarar koma við sögu í myndinni og segir Ólöf að fólk hafi verið jákvætt fyrir því að taka þátt í verkefninu. „Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikur kannski stærsta hlutverkið af þessum þekktu leikurum. Ég sendi henni handritið. Henni fannst það skemmtilegt, og var mjög til í að vera með.“
Spurð að því hvort að hún hafi fengið viðbrögð við myndinni nú þegar, segist Ólöf hafa fengið góð viðbrögð. Efnið sé ferskt, og kvikmyndin sýni að það geti verið góð stemmning í sveitinni.