Klassa drusla með tæplega þrjú þúsund gesti

Íslenska gamanmyndin Hvernig á að vera klassa drusla lenti í öðru sæti aðsóknarlistans eftir aðra helgi í sýningum. Um 1700 gestir fóru á myndina í vikunni og nemur aðsókn alls 2,880 manns eftir tvær sýningarhelgar.

Hvernig á að vera klassa drusla segir frá tveimur ólíkum vinkonum og uppákomum þeirra þegar þær fara að vinna á sveitabæ yfir sumarið. Myndin kemur úr smiðju Ólafar Birnu Torfadóttur sem stígur hér fram með sína fyrstu mynd í fullri lengd.

Undanfarin ár hefur Ólöf sankað að sér talsverðri reynslu í sínu fagi eftir að hún lauk námi af handrits- og leikstjórnarbraut Kvikmyndaskóla Íslands árið 2016. Auk þess að hafa gegnt fjölmörgum hlutverkum í ýmsum verkefnum og þar á meðal unnið á tökustað Game of Thrones, stofnaði hún framleiðslufyrirtækið MyrkvaMyndir og vakti jákvæða athygli með stuttmyndunum Millenium lausnir og Síðasta sumar. Hin síðarnefnda var útskriftarverkefni Ólafar og hlaut verðlaun á Los Angeles Independent Film Festival sem fram fór í ágúst 2016. Myndin hlaut verðlaun í flokknum Best Comedy/Dramedy, Foreign.

Nýjasta verk Ólafar hefur hingað til hlotið jákvæðar viðtökur gagnrýnenda og lofar Fréttablaðið hressandi og skemmtilegri mynd. „[Hvernig á að vera klassa drusla] gerir út á ærsla­gang og grín þar sem stelpurnar taka völdin, gefa staðal­í­myndum langt nef, og sýna svo ekki verður um villst að það er alveg hægt að vera klassa drusla,“ skrifar Edda Karitas Baldursdóttir.

„Framvinda myndarinnar er hröð og skemmtileg þar sem keyrt er á vel útfærðum grínatriðum sem kitla hláturtaugarnar. Mikill ærslagangur og grín einkenna myndina sem er töluvert ólíkt því sem við höfum átt að venjast í íslenskum kvikmyndum á síðustu árum.“

„Myndin er afar lofandi frumraun leikstjórans og ferskur andblær í íslenskt kvikmyndalandslag,“ segir meðal annars í umsögn Gunnars Ragnarssonar hjá Morgunblaðinu.