Nýtt bíóár er komið í fullan gang og nú á föstudaginn fáum við tvær áhugaverðar kvikmyndir í bíó. Annarsvegar njósna- gaman- spennumyndina The King´s Man og hinsvegar dramað The Lost Daughter.
The King´s Man fjallar um það þegar Kingsman leyniþjónustan er stofnuð í upphafi 20. aldarinnar, meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stendur, til þess að stöðva samansafn verstu harðstjóra og glæpaforingja heimsins sem býr sig undir að efna til stríðs sem mun þurrka milljónir manna af yfirborði Jarðar.
The King´s Man er þriðja myndin í King´s Man seríunni sem byggðar eru á teiknimyndasögunni The Secret Service eftir Mark Millar og Dave Gibbons.
The King´s Man er forsaga Kingsman: The Secret Service frá árinu 2014 og Kingsman: The Golden Circle frá 2017.
Leikstjóri er Matthew Vaughn sem einnig skrifaði söguna og handritið ásamt Karl Gajdusek.
Þekktir leikarar fara með helstu hlutverk, en þar ber helst að nefna Ralph Fiennes, Gemma Arterton, Rhys Ifans, Matthew Goode, Tom Hollander, Harris Dickinson, Daniel Brühl, Djimon Hounsou og Charles Dance.
Vegna kórónuveirufaraldursins var frumsýningu myndarinnar fyrst frestað frá 15. nóvember 2019 til 14. febrúar 2020. Þá var henni frestað aftur til 18. september sama ár og svo aftur til 12. febrúar 2021. Þá var henni frestað til ágúst 2021 og svo að lokum til 22. desember árið 2021 þegar hún var loks frumsýnd í Bandaríkjunum.
Afrek Maggie Gyllenhaal
The Lost Daughter fjallar um það þegar Leda ( Olivia Colman) ein á ferð í fríi við ströndina verður hugfangin af ungri móður og dóttur hennar er hún fylgist með þeim á ströndinni. Henni verður órótt yfir einlægu sambandi þeirra (og háværri og ógnvekjandi stórfjölskyldunni). Yfir Ledu hellast minningar um ógn, ringulreið og ákefð þess að verða ný móðir. Hvatvís gjörð sviptir Ledu inn í hennar eigin ógnvekjandi hugarheim þar sem hún neyðist til að takast á við óhefðbundnar ákvarðanir sem hún tók sem ung móðir og afleiðingar þeirra….
Í dómi um myndina á vef bandaríska blaðsins New Yorker segir meðal annars að myndin sé mikið afrek. Hún sé skoði líf kvenna í nánum smáatriðum og í ljósi víðtækrar, djúpstæðrar reynslu.
Einnig að leikstjórinn, Maggie Gyllenhaal, skori hér kvikmyndagerðarmenn og framleiðendur á hólm, kvikmyndaiðnaðinn sem heild, og framtíð listformsins.
Með aðalhlutverkið í myndinni fer Óskarsverðlaunaleikkonan Olivia Colman.