Splunkuný stikla fyrir nýjustu Keanu Reeves kvikmyndina Replicas er komin út, og miðað við það sem þar má sjá er hér á ferðinni áhugaverður vísindatryllir. Einfaldast er kannski að vitna í meistarann sjálfan, Keanu Reeves, sem útskýrir þetta eins og honum einum er lagið: “There was a Crash. You and the Kids died. I Brought you back” eða í lauslegri íslenskri þýðingu: Það varð bílslys. Þú og börnin létust. Ég lífgaði ykkur við.
Hér er sem sagt á ferðinni mynd sem fjallar um það þegar persóna Reeves, sem er einhversskonar ofurvísindamaður, lendir í þeim harmleik að missa alla fjölskylduna. Yfirkominn af sorg þá ákveður hann að klóna þau öll.
Reeves er ekki ókunnugur vísindatryllum, en skemmst er þar að minnast hins goðsagnakennda The Matrix þríleiks í því sambandi.
Eftir að eiginkonan fer að finna fyrir einhverju í maganum, þá neyðist Reeves til að upplýsa hana um það sem gerðist, og svo virðist sem hún sé ekki allskostar ánægð með að vera í raun látin, og vera klón af sjálfri sér!
Yfirvöld eru heldur ekkert alltof hrifinn af framkvæmdinni, enda kallar klónun mannfólks á margar og flóknar siðferðilegar spurningar
Aðrir helstu leikarar eru Thomas Middleditch (Silicon Valley, Godzilla: King of the Monsters) og John Ortiz (Fast and Furious, Peppermint).
Leikstjóri er Jeffrey Nachmanoff og handritið skrifar Chad St. John (London Has Fallen)
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og nokkur mismunandi plaköt á mismunandi tungumálum þar fyrir neðan: