Kate Upton gæti hefnt sín með Diaz

Fyrirsætan og leikkonan Kate Upton á í viðræðum um að leika á móti Cameron Diaz og Leslie Mann, í hlutverki konu sem leitar hefnda á flagara, í myndinni The Other Woman.

Leikstjóri myndarinnar er Nick Cassavetes en myndin fjallar um konu, sem leikin er af Diaz, sem kemst að því að hún er „hin konan“ í ástarsambandi. Hún ákveður að hafa samband við eiginkonuna, sem leikin er af Mann, til að hefna sín á hinum svikula eiginmanni, sem leikinn er af Nikolaj Coster-Waldau.

Kate Upton í hlutverki sínu sem systir Bernice í The Three Stooges

Ef samningar nást um leik Upton í myndinni, þá myndi Upton leika aðra hjákonu Coster-Waldau sem hefur ekki hugmynd um að hann er kvæntur, og endar með því að vinna með hinum konunum tveimur gegn manninum.

Handritshöfundur er Melissa Stack og munu tökur myndarinnar hefjast í New York snemmsumars.

Þetta hlutverk yrði stærsta kvikmyndahlutverk Upton til þessa, en Upton hefur slegið í gegn sem sundfatamódel en hefur birst stuttlega í tveimur bíómyndum;  The Three Stooges og Tower Heist.