Kvikmyndir.is fór að sjá bíómyndina The Intern í gær með þeim Anne Hathaway og Robert De Niro í aðalhlutverkum. Myndin fjallar um ekkil sem er kominn á eftirlaun. Hann reynir að fylla dagana hjá sér með ýmsu tómstundastarfi, en leiðist frekar þófið, og rekst á auglýsingu þar sem auglýst er eftir lærlingi í net – sprotafyrirtæki á hraðri uppleið. Þar ræður stofnandinn Anne Hathaway ríkjum og De Niro fær það lítt öfundsverða hlutverk að vera henni til aðstoðar án hennar vitundar. Gamlingjaprógrammið sem hann var ráðinn inn í var nefnilega eitthvað sem Hathaway samþykkti en gleymdi jafnharðan, enda í afar erilsömu starfi.
Maður gæti haldið fyrirfram að megin umfjöllunaratriði myndarinnar væri staða eldra fólks og hvernig það tekst á við lífið eftir að starfsferli lýkur. Það er hinsvegar öðru nær, því það atriði er í raun afgreitt mjög snemma í myndinni. Við tekur aðalumfjöllunaratriði myndarinnar sem er hlutverk kynjanna og togstreyta milli heimilis og vinnu.
Það að sjá hinum hefðbundu, eða gamalgrónu, kynjahlutverkum snúið við er eitthvað sem fólk virðist enn vera að venjast, og það er einmitt rætt oftar en einu sinni í myndinni. Það sem ætti að vera ofureðlilegt, að konan vinni úti og eigi mjög annríkt, en karlinn sé heimavinnandi og fórni sínum ferli til að sinna heimili og börnum, virðist enn vera eitthvað sem þykir óvenjulegt og jafnvel skrýtið.
Myndin er ágæt skemmtun og dansar á mörkum gamans og drama. Aldrei er þó farið djúpt í dramað, og lausnir oft einfaldar. En þau gera þetta vel De Niro og Hathaway, og aukapersónur eru einnig margar skemmtilegar.