Sjö ár eru síðan við sáum besta spæjara í heimi, Johnny English, síðast á hvíta tjaldinu í Johnny English Reborn, og nú er hann mættur aftur í Johnny English Strikes Again. Það er auðvitað Rowan Atkinson sem leikur English eins og í fyrri myndunum tveimur.
Miðað við það sem sést í fyrstu stiklunni úr kvikmyndinni sem var að koma út, þá virðist English vera hættur í bransanum og farinn að kenna. En Adam var ekki lengi í Paradís, og English er skyndilega kallaður aftur til starfa hjá MI7, þegar breskir leyniþjónustumenn um allan heim eru afhjúpaðir, hver á fætur öðrum.
Nú þarf English að komast að því hver stendur á bakvið glæpinn, og með honum er aðstoðarmaðurinn Bough, sem leikinn er af Ben Miller. Emma Thompson leikur yfirmann English.
Aðrir helstu leikarar eru Olga Kurylenko og Jake Lacy. Leikstjóri er David Kerr. Myndin kemur í bíó á Íslandi 5. október nk.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: