John Wick: Chapter 3 hefur fengið nýtt vinnuheiti, en heitið gefur til kynna að stríð sé í vændum á milli hins alræmda leigumorðingja John Wick, og leigumorðingjanna við Hásætið, eða High Table.
John Wick 1, með Keanu Reeves í titilhlutverkinu, sló í gegn árið 2014, en þar var boðið upp á skefjalaust ofbeldi og hasar, sem féll vel í kramið hjá bíógestum. Mynd númer tvö gaf þeirri fyrri lítið eftir, og því var umsvifalaust hlaðið í þriðju myndina.
Í mynd númer tvö fengum við að kynnast skuggaveröld leigumorðingja, og þeim lögum og reglum sem þar gilda.
Í lok myndar númer tvö var John Wick búinn að brenna allar brýr að baki sér og lagstur á flótta eftir að hafa brotið aðalregluna, að allir leigumorðingjar eigi öruggt athvarf innan veggja Continental Hótelsins.
Samkvæmt nýbirtum söguþræði fyrir þriðju myndina, þá þarf John Wick nú að brjóta sér leið út úr New York borg, með aðstoð „þjónustuiðnaðarins“, til að halda lífi.
Samkvæmt vefsíðunni Omega Underground þá var fyrsta vinnuheiti nýju myndarinnar Alpha Cop, en núna er vinnuheitið Parabellum, sem er latneska og þýðir „að búa sig undir stríð“.
Í þriðju myndinni verður að sjálfsögðu boðið upp á nýjar persónur, en enn er óljóst hver hlutverkin verða. Ein af nýju leikkonunum er sögð verða Halle Berry, en hennar persónu er lýst sem konu á aldrinum 20-40 ára sem á eitt barn.
Von er á myndinni í bíó á næsta ári.