Bandaríska leikkonan Jessica Alba gerði garðinn frægan í hlutverki sínu sem Nancy Callahan í fyrstu myndinni um Syndaborgina, sem var frumsýnd árið 2005.
Callahan var hluti af sögu lögreglumannsins Hartigan, sem bjargaði henni í æsku frá hinum ógeðfellda Roark Jr., sem seinna varð að Gula skrípinu. Hartigan náði síðar hefndum á skrípinu, en svipti sig lífi í kjölfarið. Callahan er því í hefndarhug í framhaldsmyndinni, Sin City: A Dame to Kill For.
Kvikmyndirnar um Syndaborgina eru byggðar á teiknimyndasögum Frank Miller og eru leikstýrðar af Robert Rodriguez. Fyrsta myndin fékk einróma lof gagnrýnenda og leiddi af stað byltingu í kvikmyndagerð þar sem myndasögur fengu nýtt líf á hvíta tjaldinu, en í kjölfarið fylgdu myndir eins og Watchmen og The Spirit.
Jessica Alba hefur ætíð haft áhuga á leiklist og kom stóra tækifærið þegar leikstjórinn James Cameron valdi hana úr potti 1.200 kandítata fyrir hlutverk erfðabreytta ofur-hermannsins, Max Guevara, í sjónvarpsþáttaröðinni Dark Angel. Þátturinn var sýndur í tvö ár, eða til 2002, og fékk Alba mikið lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína og færði hlutverkið henni tilnefningu til Golden Globe-verðlaunanna. Athyglisverð hlutverk Alba á hvíta tjaldinu eru meðal annars sem danskennari í Honey og sem teiknimyndablaða-persónan Sue Storm, ósýnilega konan, í Fantastic Four.
Ekkert hlutverk virðist þó komast í hálfkvisti við persónu hennar í Sin City og segist Alba hafa beðið lengi eftir að framhaldsmyndin yrði gerð. Alba var því að vonum ánægð þegar loksins var ákveðið að gera framhald eftir að myndin hafi verið í bígerð í nokkur ár, en hún og leikstjórinn, Robert Rodriguez, hafa unnið mikið saman í gegnum tíðina. ,,Söguþráður Nancy er sjálfstæður, svo það var ekki mikið til þess að byggja á. Það var því sannur heiður að fylgjast með Robert Rodriguez og Frank Miller byggja fléttu út frá persónu Nancy.“ sagði hún í viðtali á dögunum.
Framhaldsmyndin Sin City: A Dame to Kill For verður frumsýnd þann 22. ágúst næstkomandi og verður fróðlegt að sjá hverning persónan þróast í framhaldsmyndinni, og hvort hún nái hefndum á Roark-fjölskyldunni.