James Franco er þekktur fyrir að sitja ekki auðum höndum. Hann útskrifaðist úr háskóla samfara kvikmyndaferlinum sínum með 1.einkunn fyrir nokkrum árum síðan og nú hefur hann 10 opin kvikmyndaverkefni til að dunda sér við árið 2012, geri aðrir betur. Þessum 33 ára orkubolta finnst það greinilega ekki nóg.
Hann skrifaði bókina Actors Anonymous í fyrra og hefur nú fundið útgefanda. Bókin er skáldsaga og er byggð að hluta til á reynslu hans í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood en Franco hefur neitað að gefa út meiri upplýsingar varðandi bókina. Orðið á götunni er að útgefandinn sé sá fyrsti og eini sem hefur fengið að lesa verkið.
Í fyrra gaf Franco út bókina Palo Alto sem er samansafn smásagna úr smiðju hans þannig að hann er enginn nýgræðingur þegar kemur að skrifum.
Skáldsagan mun koma út um mitt ár 2012 og verður til sölu hjá bóksölum vestanhafs og á Amazon. Ekki er ljóst hvort bókin verði gefin út á Íslandi.