Rokktónlistarmaðurinn Jack White hefur dregið sig út úr þátttöku í kvikmyndinni The Lone Ranger sökum annríkis, en í apríl sl. var tilkynnt að hann hygðist semja tónlistina fyrir myndina, sem leikstýrt er af Gore Verbinski. Við keflinu hefur tekið kvikmyndatónskáldið Hans Zimmer, en hann samdi meðal annars tónlistina fyrir Pirates of the Caribbean myndirnar, sem Verbinski leikstýrði.
Disney fyrirtækið, sem framleiðir The Lone Ranger, segir í yfirlýsingu að White hefði þegar samið eitthvað af tónlist fyrir myndina, en þegar frumsýning myndarinnar var færð frá maí á næsta ári til 3. júlí, þá hafi það ráðið úrslitum um þátttöku White.
Þetta eru vonbrigði fyrir þá sem var farið að hlakka til að heyra vestraskotna tónlist frá White, en Zimmer er ekki síðri valkostur.