Spennu- og hasarmyndin Olympus Has Fallen sem verður frumsýnd hér á landi þann 22. mars er dálítið sérstök fyrir okkur Íslendinga að því leyti að handritið er skrifað af Íslendingnum Katrínu Benedikt og eiginmanni hennar, Creighton Rothenberger.
Katrín Benedikt ásamt Gerard Butler aðalleikara Olympus has Fallen
Katrín er fædd í Reykjavík, dóttir Sigríðar Benediktsdóttur og Reynis Harðarsonar. Eftir að foreldrar hennar slitu samvistum og mamma hennar giftist aftur fluttist hún til Bandaríkjanna 6 ára gömul með tveimur systkinum sínum og hefur búið þar alla tíð síðan.
Katrín er viðskiptafræðingur með sérfræðimenntun í lífeyrismálum stórfyrirtækja (benefits) en það hafði lengi blundað í henni að reyna fyrir sér í handritsskrifum þegar hún skellti sér á námskeið í handritsgerð árið 2000 í Philadelphiu.
Námskeiðið átti þó eftir að hafa meiri áhrif á líf hennar en hana grunaði því þar hitti hún annan áhugasaman nemanda, Creighton Rothenberger, og svo fór að þau gengu í hjónaband. Síðan þá hafa þau unnið saman að ýmsum handritsskrifum og segir Katrín að það hafi verið þeim hjónum gríðarlegt ánægjuefni þegar þeim tókst að koma handritinu að Olympus Has Fallen í framleiðslu og ekki síst sé spenningurinn mikill núna þegar frumsýning myndarinnar er í nánd.
Vafalaust á Olympus Has Fallen eftir að verða þeim hjónum mikil lyftistöng inn í framtíðina, en þau vinna núna m.a. að handritsgerð myndar fyrir þekktan leikara og framleiðanda í Hollywood. Ekki er þó tímabært að gefa meiri upplýsingar um það verkefni að svo stöddu.
„Í þessum bransa er best að sýna auðmýkt,“ sagði Katrín í stuttu spjalli við Myndir mánaðarins á dögunum. „Vinna við kvikmyndagerð er sannkölluð rússíbanareið þar sem þú veist aldrei hvernig hlutirnir æxlast. Einn daginn gengur allt upp en þann næsta getur allt hafa snúist algjörlega við og því best að gefa sér ekki neitt eða vera með yfirlýsingar fyrr en allt er í höfn.“
Meðfylgjandi ljósmynd er úr einkasafni Katrínar og er birt með hennar leyfi. Hún var tekin í ágúst 2012 í Shreveport í Louisiana þegar verið var að kvikmynda Olympus Has Fallen og Katrín hitti aðalleikara myndarinnar, Gerard Butler, í miðjum tökum. „Hann er einn af geðþekkustu mönnum sem við höfum hitt í Hollywood,“ sagði hún okkur um myndina.
Olympus Has Fallen er leikstýrt af Antoine Fuqua sem gerði m.a. The Replacement Killers, Training Day, King Arthur, Shooter og Tears of the Sun, og skartar fyrir utan Gerard Butler í aðalhlutverkum þeim Morgan Freeman, Ashley Judd, Dylan McDermott, Radha Mitchell, Aaron Eckhart, Angela Bassett, Cole Hauser og Sean O’Bryan.