Íslenskum myndum rignir inn á RIFF – hægt að senda inn myndir til 15. júlí

Eins og síðustu sjö síðustu ár þá verður Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík haldin í 8. sinn dagana 22. september til 2. október nk. Eins og venja er mun hátíðin sýna úrval vandaðra íslenskra mynda enda eru þær ómissandi í dagskrá hvers árs hjá hátíðinni.
Í frétt á heimasíðu kvikmyndahátíðarinnar er nú auglýst eftir íslenskum myndum til sýningar á hátíðinni, en frestur til að senda inn mynd rennur út þann 15. júlí nk. Auglýst er eftir jafnt leiknum myndum í fullri lengd, heimildarmyndum og stuttmyndum. Fram kemur á heimasíðunni að myndum hafi rignt inn upp á síðkastið og eru orðnar á fjórða hundrað talsins.

Eins og segir á riff.is þá eru íslenskar myndir jafnan með aðsóknarmesta dagskrárefni RIFF og á það ekki síst við um stuttmyndadagskrána, en þar komast oftast færri að en vilja. Þá koma fjölmargir erlendir kaupendur, dreifingaraðilar og dagskrárstjórar á hátíðina gagngert til að kynna sér nýtt og áhugavert efni frá Íslandi.

Bein slóð á skráningarsíðuna er riff.is/Sendainnmynd

Sem fyrr leggur RIFF höfuðáherslu á vandaða og framsækna kvikmyndagerð þar sem ungt og óháð kvikmyndagerðarfólk er sett í öndvegi með keppnisflokknum Vitranir, en í þann flokk komast aðeins myndir sem eru fyrsta eða annað verk leikstjóra. Á RIFF 2011 verður að finna margt af því ferskasta úr heimi kvikmyndanna þetta árið, hvort heldur er um að ræða leiknar myndir eða heimildarmyndir, myndir í fullri lengd eða stuttmyndir, barnamyndir og teiknimyndir, íhaldsamar eða framúrstefnulegar.