Þó svo að það sé afar mikilvægt að upplifa ofurhetjuveisluna The Avengers í bíó (helst oftar en einu sinni) skiptir það einnig miklu máli að „litlu“ myndirnar fari ekki framhjá fólki líka, sérstaklega þegar þær hafa verið að moka inn góðu umtali. Kvikmyndaáhugamenn á klakanum kvarta svo oft undan því að það sé of mikið af stórum myndum á meðan litlu gullmolarnir rati oftast beint á vídeó, og ástæðan er yfirleitt sú að eftirspurnin fyrir þessum lágstemmdu titlum er oft ekkert gríðarlega mikil.
Á morgun verður Indónesíska hasarmyndin The Raid: Redemption frumsýnd. Þessi mynd hefur vakið heilmikla athygli erlendis og sérstaklega á þekktum, bandarískum kvikmyndasíðum, og án þess að fara of mikið út í þessa ræmu, þá nægir að segja að flestir sem hafa vitað við hverju skal búast hafa gengið býsna ánægðir út. Það er lífsnauðsynlegt að öflugar myndir á borð við þessa skili sér út í smáhagnaði svo þeim fari fjölgandi.
Kvikmyndir.is hefur verið að plögga þessa mynd í smátíma, eins og sumir hafa eflaust tekið eftir, en það er alls ekki af ástæðulausu, og frekar en að segja það sjálfur vil ég benda ykkur á að lesa nokkur ummæli frá fastagestum síðunnar, sem sáu myndina á lokaðri forsýningu á okkar vegum. Þetta er aðeins smábrot af því sem þeir höfðu að segja:
„Var nú alveg ágætlega spenntur fyrir þessari en var þó ekkert að búast við einhverri rosalegri mynd, því ég hafði ekki kynnt mér hana eitthvað sérstaklega vel .Á fyrstu mínútum myndarinnar var ég svolítið hræddur um að þetta gæti orðið svona vandræðaleg hasarmynd, en um leið og hasarinn byrjaði var ég alveg orðlaus. Hugsanlega flottastu og flóknastu hasaratriði sem ég hef á ævi minni séð. Það hefur greinilega verið lögð gríðarlega mikil vinna á bak við öll bardagaatriðin, enda heppnuðust þau fáránlega vel! Ég hef ekki skemmt mér svona vel í bíó allt of lengi og þó að söguþráðurinn var fremur einfaldur var þetta þrátt fyrir allt geðveik mynd sem ég mæli eindregið með.“
Jónas Bragi Þórhallson
„Ekki beint mynd til að mæla með handa ömmu og afa eða yngstu kynslóðum, sem er vitaskuld augljóst. En fyrir alla þá sem hrífast af vönduðum spennumyndum (þá meina ég alvöru „vönduðum“ spennumyndum, en ekki eins og þessar glötuðu spennumyndir sem eru hæpaðar í auglýsingum af dimmrödduðum karlmönnum) og eru tilbúnir að þola ansi mikið af ógeðfelldum og blóðugum atriðum þá ættu hinir sömu að hætta öllu því sem þeir eru að gera og sjá myndina sem allra fyrst. Það er mjög mikilvægt.“
Geir Finnsson
„Þetta er einhver besta „hasarorgía“ sem til er, var ekkert um dauða punkta í myndinni, og ég held að ég hafi ekki séð svona vel chronograph-uð bardagaatriði í mörg ár, öruglega bara síðan úr matrix trilogíunni, þau voru bara svo brútal, og hröð, og þú actually sást bardagann, shaky camera 1 second cuts var ekkert voðalega mikið að þvælast fyrir þér eins og í mörgum myndum í dag.“
Daníel Leó
„Á fyrstu mínútum myndarinnar var ég svolítið hræddur um að þetta gæti orðið svona vandræðaleg hasarmynd, en um leið og hasarinn byrjaði var ég alveg orðlaus. Hugsanlega flottastu og flóknastu hasaratriði sem ég hef á ævi minni séð. Það hefur greinilega verið lögð gríðarlega mikil vinna á bak við öll bardagaatriðin, enda heppnuðust þau fáránlega vel! Ég hef ekki skemmt mér svona vel í bíó allt of lengi og þó að söguþráðurinn var fremur einfaldur var þetta þrátt fyrir allt geðveik mynd sem ég mæli eindregið með.“
Jónas Bragi Þórhallsson
„Ef fólk er með eitthvað vit í kollinum og fílar snarklikkaðar hasarmyndir ættu þeir alls ekki að láta þessa framhjá sér fara. Því loks þegar hún kemur á dvd mun hún verða heljarinnar költari og allir munu hugsa með sér afhverju sá ég ekki þessa í bíó 🙂 „
Róbert Ísleifsson
Afganginn má finna hér.