Inception stjörnur á blaðamannafundi

Fyrir þá sem bíða spenntir eftir mynd Christopher Nolan, Inception, sem frumsýnd verður í júlí, þá geta þeir stytt sér stundir við að hlusta á blaðamannafund sem aðstandendur kvikmyndarinnar héldu um síðustu helgi, en upptöku af fundinum er að finna í spilaranum hér fyrir neðan.

Á fundinum voru leikstjórinn Christopher Nolan, framleiðandinn Emma Thomas, tónskáldið Hans Zimmer og aðalleikararnir Leonardo DiCaprio, Joseph Gordon-Levitt, Ellen Page, Marion Cotillard, Tom Hardy, Cillian Murphy og Ken Watanabe.

Eins og segir á síðu myndarinnar hér hjá okkur á kvikmyndir.is þá er sögurþráður myndarinnar þessi:
„Dom Cobb er hæfileikaríkur þjófur og sá allra besti í þeim hættuleik að stela verðmætum leyndarmálum djúpt innan úr huga fólks þegar það er í draumsvefni.
Þessi sjaldgæfi hæfileiki Cobbs hefur gert hann mjög eftirsóttan í heimi iðnaðarnjósna, en að sama skapi hefur þetta orðið til þess að hann er nú eftirlýstur flóttamaður og hann hefur fórnað öllu sem hann hefur elskað.
Nú er Cobb boðið tækifæri til að snúa til baka og fá uppgjöf saka. En hann þarf að vinna eitt loka verkefni, sem er nánast ógjörningur að vinna. Verkefnið hans og liðsmanna hans felst í að gera hið gagnstæða, þ.e. ekki að stela hugmyndum heldur að koma einni slíkri fyrir.
Ef þeim tekst ætlunarverkið gæti þetta orðið hinn fullkomni glæpur. En í raun getur ekkert búið þá undir þann stórhættulega óvin sem nú fylgist með hverju skrefi þeirra.“