Christopher Nolan, hinn virti kvikmyndagerðarmaður, er ekki par sáttur með ákvörðun Warner Bros. um að gefa kvikmyndir félagsins út á streymisþjónustu HBO Max á sama tíma og þær eiga að lenda í bíóhúsum vestanhafs. Hann segir þetta skipulag hafi komið mörgu kvikmyndagerðarfólki í opna skjöldu og séu stór mistök þegar upp er staðið. Í nýlegu samtali við ET Online segir Nolan kvikmyndaverinu til syndanna:
„Þetta er mikið hitamál vegna þess að þeir [hjá Warner] létu engan vita af þessu fyrirfram. Þeir vinna með einhverju öflugasta kvikmyndagerðarfólki í heiminum, þeir eru með einhverjar stærstu stjörnurnar sem hafa í mörg ár unnið að verkefnum sem er þeim hugleikin, verkefnum sem ætlast er til að fólk njóti í kvikmyndahúsum,“ segir Nolan og gagnrýnir Warner Media fyrir að hafa ekki ráðfært sig betur við aðra framleiðendur eða kvikmyndagerðarfólk almennt. Nolan undirstrikar að þetta mál sé gífurlega óreiðukennt.
Sjá einnig: Dune, Matrix 4 og fleiri Warner Bros. myndir á HBO Max
„Allir kvikmyndaframleiðendur gera sér grein fyrir því að bíóiðnaðurinn muni snúa aftur og mun það skipta iðnaðinn miklu máli til langs tíma. Í þessum iðnaði eru fullmargir að notfæra sér faraldurinn sem afsökun til að innleiða og festa í sessi lausn sem þessa. Þetta er leiðindamál.“
Nolan varpaði nánara ljósi á þetta erindi í yfirlýsingu sem hann sendi til fréttamiðilsins The Hollywood Reporter. Þar sparar hann ekki stóru orðin í garð kvikmyndaversins sem hefur verið honum afar kært síðustu áratugi.
„Margir á meðal okkar færustu kvikmyndagerðarmanna og stærstu leikara fóru í háttinn áður en þessar vendingar komu og hugsuðu með sér að þeir væru að starfa fyrir mikilfenglegasta kvikmyndaver samtímans og vöknuðu næsta dag hugsandi með sér að þeir væru komnir í vinnu hjá verstu streymisþjónustunni,“ segir Nolan í yfirlýsingunni og bætir við að aðstandendur Warner Bros. geri sér ómögulega grein fyrir því hverju þeir eru að tapa.
Nolan tekur fram í yfirlýsingunni að Warner Bros. hafi verið „heimili sitt“ undanfarna tvo áratugi, enda hefur meirihluti kvikmynda hans verið framleiddur af því kvikmyndaveri, frá og með Insomnia (2002) nánar til tekið. Á árunum síðan þá hafa kvikmyndir Nolans þénað yfir 5 milljarða Bandaríkjadala, myndir eins og Inception, The Prestige, Interstellar, Dunkirk, Tenet og The Dark Knight þríleikurinn.
Sjá einnig: Segir bíóin ekki vera í útrýmingarhættu