Stjörnustríðsaðdáandinn Alex Wall brotnaði niður þegar eiginkona hans neyddi hann til að selja heittelskaðan Chewbacca, eða Loðinn, búninginn sinn, samkvæmt frétt í The Daily Mail.
Wall var að taka til dót og drasl til að losa sig við vegna flutnings í minna húsnæði í Melbourne í Ástralíu, þegar konan, honum til mikillar skelfingar, krafðist þess að hann myndi selja búninginn sem hann keypti á sínum tíma sérstaklega fyrir veislu með áttunda áratug síðustu aldar sem þema.
Í ofboði reyndi Wall að losa sig við aðra hluti í staðinn fyrir hinn mjög svo loðna grímubúning, en konan var óhagganleg í afstöðu sinni.
Wall gerði þá það sem er nokkuð vinsælt í dag – hann skellti búningnum á Facebook og lét þar með alla vita sem vildu, að salan á búningnum væri algjörlega gegn hans vilja, og viðbrögðin létu ekki á sér standa.
„Ég var algjörlega í rusli yfir þessu,“ sagði Wall við Daily Mail Australia, eftir að hann hafði sett mynd af búningnum á Facebook, en myndin hefur nú verið fjarlægð.
„Ég hefði notað búninginn aftur, þannig að ég stakk upp á fullt af öðrum hlutum til að losa mig við, en konan mín sló í borðið og sagði að hann yrði að fara“
Wall setti skemmtilega mynd af sjálfum sér í búningnum fyrir utan kránna og skrifaði við myndina: „Konan mín vill að ég selji þetta, núna geturðu upplifað uppáhalds Loðinn andartökin þín eins og þetta fyrir aðeins 150$.“