Það vita allir að fyrr eða síðar verður gerð kvikmynd um ævi Whitney Houston. Síðustu misseri hafa verið sögusagnir í gangi um að Clive Davis sé að undirbúa slíka kvikmynd. Núna er stjarnan látin og þá er ekki spurning um hvort heldur hvenær myndin verður gerð. Vangavelturnar um hver fái þetta bitastæða hlutverk eru að sjálfsögðu komnar á fullt skrið. Kvikmyndir um lífshlaup látinna tónlistarmanna hafa nánast án undantekninga verið miklar verðlaunabeitur og Óskarstilnefningar fyrir leik í aðalhlutverki fylgja yfirleitt með. Sem dæmi má nefna Angelu Bassett sem fékk tilnefningu fyrir What’s Love Got To Do With It en þar lék hún Tinu Turner, einnig má nefna Reese Witherspoon sem vann styttuna fyrir Walk The Line en þar lék hún June Carter Cash, svo má ekki gleyma Ray þar sem Jamie Foxx fór á kostum og vann fyrir túlkun sína á Ray Charles. Nóg um það, vindum okkur í getgátur!
Fyrst ætla ég að nefna söng- og leikkonuna Brandy Norwood.
Brandy hefur leikið í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og einnig gefið út nokkrar plötur, hún hefur aldrei náð meiri vinsældum en þegar dúett hennar með Monicu, The Boy Is Mine, var vinsælt lag (ég og vinkonur mínar tókum upp myndband af okkur að syngja þennan dúett á sínum tíma og yours truly var að sjálfsögðu Brandy). Brandy hefur látið hafa eftir sér að hún sé rétta manneskjan til að leika Whitney „Draumahlutverkið mitt væri að leika Whitney Houston. Auðvitað þyrfti hún að syngja öll lögin en ég myndi gjarnan vilja leika Ungfrú Houston. Ég er búin að ná persónuleikanum og töktunum hennar niður. Ekki móðgast stelpur, það er til mikið af hæfileikaríkum stelpum þarna úti, en engin getur leikið Whitney eins og ég.“ Þess má geta að hún lét þessi orð falla nokkrum vikum áður en Whitney lést. Hana skortir að minnsta kosti ekki sjálfstraustið en þó er hennar helsti galli það sem hún nefnir, það þyrfti að dubba sönginn hennar. Brandy er ágætis R&B söngkona en hún hefur ekki nærri því jafn vítt tónsvið og Whitney var með og þá er hún sjálfkrafa dottin úr keppninni ef framleiðendur eru að leita að stelpu sem getur sungið lögin hennar Whitney. Brandy hefur þó reynsluna af því að leika með Whitney í myndinni Cinderella frá árinu 1997 (mæli ekki með þeirri ræmu) og þær urðu víst góðar vinkonur við tökur þannig að hún hefur það fram yfir aðrar að hún þekkti hana persónulega.
Snúum okkur að næsta kandídat, það er stórdívan Jennifer Hudson.
Jennifer Hudson byrjaði ferilinn í American Idol þar sem hún komst í topp tólf manna hópinn í þriðju seríu en endaði svo í sjöunda sæti, eflaust héldu margir að hún myndi falla í gleymsku eftir það en svo fór að hún hreppti hlutverk í söngleikjamyndinni Dreamgirls og vann Óskarinn fyrir hlutverk sitt. Þar með var J. Hud orðin að stórstjörnu. Jennifer hefur allt sem til þarf til að leika Whitney, hún er góð leikkona og frábær söngkona, ef einhver getur sungið lögin hennar Whitney þá er það hún. Skemmst er að minnast flutnings hennar á I Will Always Love You á Grammy verðlaunahátíðinni um daginn þar sem hún fór létt með þetta erfiða lag. Eini gallinn sem mér dettur í hug er að Jennifer er kannski orðin of stórt nafn, framleiðendur myndu kannski frekar vilja aðeins óþekktara andlit svo að áhorfendur myndu ekki bara sjá Jennifer Hudson á hvíta tjaldinu í staðinn fyrir persónuna sem hún er að leika.
Næsta í röðinni er Vivica A. Fox.
Fröken Fox hefur verið orðuð við hugsanlegt hlutverk Whitney í þónokkurn tíma núna og það er ekki erfitt að átta sig á afhverju, þær eru nokkuð líkar og Vivica er reynslumikil leikkona. Hins vegar er Vivica ekki söngkona þannig að það þyrfti að dubba hana og svo er aldurinn einnig vandamál, hún er aðeins einu ári yngri en Whitney var. Þó gæti verið farin þá leið að tvær leikkonur leiki hlutverkið, ein myndi leika unga Whitney og önnur eldri Whitney og þá myndi Vivica henta vel sem eldri útgáfan.
Annar kostur væri Beyoncé Knowles.
Kannski frekar augljóst og klisjukennt val en Beyoncé er ein stærsta stjarnan í heiminum í dag og ef hún sækist eftir hlutverkinu eru nokkuð góðar líkur á að hún fái það bara út af því að hún er Beyoncé. Það sem þær Beyoncé og Whitney eiga sameiginlegt er að þeim var báðum ýtt út í sviðsljósið frá táningsaldri og svo eru þær báðar mezzó-sópran söngkonur (reyndar er Jennifer Hudson það líka) og þó að Beyoncé sé ekki alveg með tónsviðið hennar Whitney þá er hún með rödd sem spannar yfir þrjár áttundir og ætti því að geta ráðið við flest lögin hennar. Whitney byrjaði ferilinn sem módel og Beyoncé ætti ekki að vera í vandræðum með að vera trúverðug sem módel enda gordjöss kona. Hún sýndi fínan leik í Dreamgirls og gæti blómstrað í þessu hlutverki ef hún fengi tækifærið. Það er þó helsti vandi hennar að hún er of stór stjarna, sama vandamál og með Jennifer Hudson nema að Beyoncé er ennþá stærra nafn og því gæti verið erfitt fyrir áhorfendur að kaupa hana sem Whitney.
Síðust en ekki síst er Leona Lewis.
Leona er auðvitað engin leikkona en hún er frábær söngkona og hefur í gengum tíðina tekið mörg Whitney Houston lög í nefið. Whitney sjálf var mikill aðdáandi X-Factor sigurvegarans og taldi hana vera unga útgáfu af sjálfri sér. Helstu gallar hennar eru að hún er ekkert lík Whitney og mjög reynslulítil í bransanum. Það þyrfti að sjálfsögðu að skella henni í leiklistarnám (og hún þyrfti að redda sér Amerískum hreim) en hvað sönginn varðar þyrfti Leona enga hjálp.
Þá eru tillögur mínar upptaldar. Mitt val er Jennifer Hudson, þó að hún sé ekkert sérstaklega lík Whitney þá er hún frábær leikkona og söngkona og það þyrfti ekki að dubba hana. Síðustu ár hefur ekki verið „inn“ að dubba söng í svona ævisögumyndum og mig grunar að sú leið verði ekki farin í þessari mynd ef af henni verður.
Hvað finnst ykkur? Er einhver af þessum tillögum nógu góð eða viltu fá aðra í hlutverkið?