Hugrakka Hurt Locker stjarnan Jeremy Renner er nánast jafn huguð og persónan sem hann lék í myndinni. Í Hurt Locker vinnur persóna Renners við að aftengja sprengjur í Írak, en nú nýverið fór Renner á jarðsprengjusvæði í Afghanistan til að vekja athygli á fjölda jarðsprengna sem enn eru grafnar þar í jörðu eftir áratuga óöld í landinu.
Unnið hefur svo árum skiptir í að reyna að fjarlægja jarðsprengjur í landinu, en talið er að jarðsprengjur séu enn á 650 ferkílómetra svæði í Afghanistan.
Þúsundir Afgana hafa látið lífið eða slasast vegna jarðsprengna eða annarra vígatóla sem orðið hafa eftir á vígvöllum landsins í gegnum tíðina á síðustu 30 árum , og margir hafa misst útlimi eða hlotið varanleg ör og skaða annan.
Remner fór í ferð með Sameinuðu þjóðunum til Afghanistan og hittir þar fyrir sprengjusveit norður af Kabúl, höfuðborg landsins.
„Þetta er magnað,“ sagði Renner í samtali við fréttamenn. “ Það er frábært að sjá þessa sprengjuleitarmenn augliti til auglitis að störfum,“ sagði hann. „Ég held að það séu ekki margir í mínum sporum – ég er bara leikarabjáni – sem fá tækifæri til að koma til Afghanistan á stríðstímum og fá svona reynslu,“ segir Renner sem bauð sig fram þar sem hann vildi kynnast þessum störfum af eigin raun.
Renner að störfum í myndinni.